„Þetta er stór áfangi“

Fyrsta skóflustungan að nýjum stúdentagörðum tekin fyrr í dag.
Fyrsta skóflustungan að nýjum stúdentagörðum tekin fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mikill gleðidagur,“ segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, í tilefni þess að framkvæmdir hófust við 220 leigueiningar sem áætlað er að verði tilbúnar til búsetu skólaárið 2019-2020.

Stúdentagarðar munu rísa við Sæmundargötu þar sem verða í boði einstaklings- og paraíbúðir ásamt herbergjum með sér baðherbergi en sameiginlegu eldhúsi og stofu.

Frekari uppbygging í bígerð

„Við erum með 300 einingar í pípunum,“ segir Guðrún en stefnt er að því að hefja framkvæmdir við Gamla-Garð seinna á þessu ári. Þar rís bygging með 80 herbergjum. Áætlað er að báðar byggingar muni nýtast stúdentum á skólaárinu 2019-2020.

Að jafnaði eru um 1.000 á biðlista eftir stúdentaíbúð og hefur það verið raunin í fjölda ára. „Miðað við fjölda umsókna sem hefur borist í júní þá sýnist mér þetta jafnvel verða enn eitt vonda metárið hvað þetta varðar,“ segir Guðrún.

Meira en bara þak yfir höfuðið

„Við erum mjög upptekin af því að stúdentagarðarnir okkar séu meira en bara þak fyrir höfuðið,“ segir Guðrún. Félagsstofnun stúdenta telur mikilvægt að einnig myndist samfélag sem hjálpar stúdentum að mynda tengslanet.

Þá séu sumir jafnvel að flytja á höfuðborgarsvæðið í fyrsta skipti og gott er fyrir þá einstaklinga að koma beint inn í slíkt samfélag. „Þar er auðveldara að kynnast fólki og þú hefur einhvern félagsskap alveg frá byrjun,“ segir Guðrún.

Uppbygging á háskólasvæðinu sjálfu er liður í því að stuðla að samfélagi stúdenta. „Þetta er stór áfangi og frábært að þetta verkefni sé komið af stað. Enda brosum við út að eyrum,“ segir Guðrún í lokin og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert