Uppbygging á Hveravöllum þarf í umhverfismat

Frá Hveravöllum. Stefnt er að mikilli uppbyggingu þar af hálfu …
Frá Hveravöllum. Stefnt er að mikilli uppbyggingu þar af hálfu Hveravallafélagsins. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Endurskoða þarf í heild matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, en félag á vegum sveitarfélaga á svæðinu hefur í hyggju að reisa þar rúmlega 1.700 fermetra hótelbyggingu sem á að geta hýst 120 manns. Þetta kemur fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar sem birt var í dag.

Í matsskýrslu sem var gerð fyrir svæðið árið 1997 var uppbygging 640 fermetra ferðamannamiðstöðvar skoðuð. Átti hún að vera innan friðlýsta svæðisins á Hveravöllum, en að mest í hvarfi frá aðalhverasvæðinu. Þá átti að gera nýjan aðkomuveg, bílastæði og tjaldsvæði, girða af hluta friðlýsta svæðisins og leggja göngustíga. Einnig var gert ráð fyrir hitaveitu og neysluvatnsveitu og fráveitu ásamt rafstöð. Fjarlægja átti nýrri skála Ferðafélags Íslands, salernisaðstöðu og aðstöðu Sauðfjárveikivarna og núverandi aðkomuveg.

Þau mannvirki sem myndu standa eftir af eldri mannvirkjum á Hveravöllum voru steinhlaðið sæluhús (reist 1922), eldri skáli Ferðafélags Íslands (reistur 1938) og veðurathugunarstöð Veðurstofu Íslands (reist 1965).

Úr 640 fermetrum í 1.710 fermetra

Í greinargerð Hveravallafálagsins, sem stendur að fyrirhugaðri uppbyggingu, sem lögð var fyrir Skipulagsstofnun kemur fram að áætlað sé að byggja 1.710 fermetra hótelbyggingu með gistingu fyrir um 120 manns í tveggja, þriggja og fjögurra til átta manna herbergjum, öllum með sérbaðherbergjum. Áfram er gert ráð fyrir veitingastað og verslun. Gert er ráð fyrir gistiaðstöðu fyrir 12 starfsmenn. Áfram er gert ráð fyrir snyrtingum, baðaðstöðu og eldunaraðstöðu fyrir tjaldgesti, sem nýtist jafnframt fyrir þá álmu hótelsins sem hægt verði að opna fyrir hópa á vetrum. Önnur eldunaraðstaða er ekki hugsuð fyrir hótelgesti og ekki önnur viðverurými fyrir dag- og næturgesti en veitingastaðurinn.

Einnig eru gerðar breytingar frá fyrri áformum varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða, rútustæða og húsbílastæða og staðsetningu rafstöðvar. Ráðgert er að hálendismiðstöðin verði staðsett á sama stað og gert var ráð fyrir í umhverfismatinu 1995-1997, þannig að um helmingur byggingarinnar verði innan friðlýsta svæðisins. Hveravallafélagið hefur þó upplýst að til greina komi að færa bygginguna út fyrir friðlýsta svæðið.

Teiknuð mynd af nýrri hálendismiðstöð á Hveravöllum.
Teiknuð mynd af nýrri hálendismiðstöð á Hveravöllum.

Mikil fjölgun gesta frá 1996

Samkvæmt fyrra matinu komu 16 þúsund daggestir á Hveravelli árið 1996 og voru gistinætur 5.500 yfir sumartímann. Það gerir um 230 daggesti á dag og 80 næturgesti. Miðað við spár var horft til þess að fjöldinn gæti farið upp í 23 þúsund og gistinætur í 8.500.

Samkvæmt gögnum í dag eru gestir á Hveravöllum nú um 35 þúsund árlega og gert er ráð fyrir 5-10% árlegri fjölgun. Í dag er gistirými fyrir 59 gesti og því sé gisting yfir stóran hluta sumarsins uppbókuð. Að meðaltali séu 15-30 tjöld á tjaldsvæðinu og fari upp í 100 þegar mest sé.

Umfangsmeiri framkvæmdir kalla á nýtt mat

Skipulagsstofnun telur rétt í ljósi þessara gagna að gert sé nýtt umhverfismat vegna uppbyggingar á svæðinu. „Ljóst er að þau áform sem nú eru kynnt af hálfu Hveravallafélagsins eru umfangsmeiri en þau sem undirgengust mat á umhverfisáhrifum á árunum 1995-1997. Það varðar bæði umfang og eðli mannvirkja og þjónustu. Skipulagsstofnun telur það eitt og sér geta kallað á að umhverfisáhrif uppbyggingarinnar séu metin að nýju,“ segir í ákvörðun stofnunarinnar. Þá sé fyrirhuguð framkvæmd talsvert frábrugðin fyrri áætlun.

Til viðbótar bendir stofnunin á að síðan 1997 hafi miklar breytingar verið gerðar varðandi framkvæmd umhverfismats. „Áhrif hennar á landslag kunna að vera önnur en þeirrar framkvæmdar sem var til umfjöllunar í mati á umhverfisáhrifum 1995-1997. Þá liggur fyrir að umhverfisáhrif uppbyggingar á Hveravöllum voru metin á fyrstu árum formlegs umhverfismats hér á landi, þegar nálgun og aðferðir voru enn í mótun. Síðan hefur aðferðum við mat á áhrifum framkvæmda á landslag fleygt fram.“

Kærufrestur vegna ákvörðunarinnar er til 31. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert