Fékk nýjan síma í sárabætur

Arnþór með nýja símann ásamt Guðna Rafni Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Eplis, …
Arnþór með nýja símann ásamt Guðna Rafni Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Eplis, og vini sínum Eiði Rafni Valssyni. Ljósmynd/Epli

Arnþór Sævarsson varð fyrir því leiðinlega atviki í gær að símanum hans var stolið þegar hann var á leið heim úr sundi. Hann var ekki símalaus í langan tíma því Epli ákvað að gefa honum nýjan iPhone 7 í sárabætur. 

Greint var frá því á mbl.is að farsíma hefði verið stolið af 12 ára göml­um dreng við Sund­lauga­veg um níu­leytið í gær­kvöldi. Eldri dreng­ur, 16 til 18 ára, hafði beðið dreng­inn um að lána sér sím­ann en hljóp síðan á brott með hann. 

„Hann var aðallega í sjokki, það er svo mikið ofbeldi þegar það er hlaupið af stað með eigur þínar og þú kemur engum vörnum við,“ segir Ragnheiður Hauksdóttir, móðir Arnþórs. „Hann var alsæll þegar hann fékk nýja símann og ég vona að það verði til þess að hann láti þennan atburð ekki hafa of mikil áhrif á sig. Svona hlutir geta mótað krakka lengi.“

Guðni Rafn Eiríksson, framkvæmdastjóri Eplis, heyrði af atvikinu í útvarpinu á leið til vinnu í morgun og ákvað að fyrirtækið þyrfti að bregðast við. 

„Þetta sló mig vegna þess að það er ungur drengur sem lendir í þessu og þá datt mér í hug að við gæfum honum nýjan síma. Það er gaman að geta glatt einhvern eftir svona atvik,“ segir Guðni.

Þjófurinn er enn ófundinn en að sögn Ragnheiðar gat Arnþór gefið lögreglu góða lýsingu á honum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert