„Fleiri skólar að fara þessa leið“

„Hliðstætt fyrirkomulag hefur verið tekið upp af nokkrum skólum. Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að fara í þessum efnum. Sumir skólar hafa gert þetta í samstarfi við viðkomandi foreldrafélög og síðan hafa sum sveitarfélög séð alfarið um þetta eins og Vogar.“

Frétt mbl.is: Hagkvæmari valkostur fyrir foreldra

Þetta segir Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, vegna ákvörðunar Kársnesskóla í Kópavogi um að senda ekki út innkaupalista í haust yfir námsgögn sem kaupa þurfi fyrir nemendur heldur kaupa þau þess í stað inn í gegnum skólann gegn hóflegu gjaldi á barn í samstarfi við foreldrafélagið. Eftir sem áður er þeim foreldrum sem það vilja frjálst að kaupa námsgögn fyrir sín börn sjálfir og geta þá fengið lista yfir þau.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.

„Mér virðist fleiri skólar vera farnir að fara þessa leið með einum eða öðrum hætti. Þessu fylgja ákveðnir kostir,“ segir Hrefna. Skólarnir geti keypt námsgögnin, eins og stílabækur, strokleður og annað, með hagkvæmari hætti og þá er engin hætta á að keypt séu námsgögn sem henta ekki af einhverjum ástæðum. Þarna fái börnin nákvæmlega réttu gögnin.

„Þetta er þannig ágætis fyrirkomulag og skref í rétta átt í þessum efnum og yfirleitt eru foreldrar bara mjög sáttir við þetta. Það er í raun mjög eðlilegt að skólinn sjái um þetta. Þetta eru einu sinni skólagögn. Síðan eru þarna ákveðin umhverfissjónarmið þar sem verið er að nýta betur gögnin. Þau nýtast síðan hugsanlega áfram næsta skólaár.“

Frétt mbl.is: Ætla að ann­ast kaup á náms­gögn­um

Þannig sé um að ræða hagkvæmara fyrirkomulag fyrir margra hluta sakir og fyrir alla hlutaðeigandi. „Maður heyrir alltaf af fleiri skólum sem ákveða að fara þessa leið eða eru að skoða það. Líka vegna þess að foreldrar eru að ræða þetta og umræða um námsgögn kemur upp á hverju ári. Þannig að þetta er að breytast smám saman í rétta átt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert