Stúdentar eiga það til að gleymast

Fyrsta skóflustungan að nýjum stúdentagörðum tekin í gær.
Fyrsta skóflustungan að nýjum stúdentagörðum tekin í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Frábært að fá að nýta þetta svæði fyrir stúdenta“, segir Ragna Sigurðardóttir formaður Stúdentaráðs HÍ um nýja stúdentagarða. Ragna segir stúdenta eiga það til að gleymast þegar ráðist er í uppbyggingu á háskólasvæðinu og því sé gleðiefni að nýir stúdentagarðar rísi á Vísindagarðsreitnum að Sæmundargötu. Samkvæmt þjónustukönnunum vilja flestir stúdentar búa í nálægð við skólann.

Vonar að Háskólinn og borgin standi við samning

Stúdentaráð hefur lengi barist fyrir frekar uppbyggingu á háskólasvæðinu og segir Ragna stúdenta mjög ánægða með þetta nýja verkefni. „En við munum auðvitað halda áfram að berjast fyrir fleiri stúdentaíbúðum“, segir Ragna.

Ragna segir Háskólann og Reykjavíkurborg hafa skrifað undir samkomulag um byggingu 400 stúdentaíbúða í viðbót. „Við vonum bara að háskólayfirvöld og borgin standi við þann samning“, segir Ragna.

Dag­ur B. Eggerts­son, borg­ar­stjóri í Reykja­vík, Guðrún Björns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri FS, …
Dag­ur B. Eggerts­son, borg­ar­stjóri í Reykja­vík, Guðrún Björns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri FS, Ragna Sig­urðardótt­ir, formaður SHÍ, Ei­rík­ur Hilm­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Vís­indag­arða HÍ og Jón Atli Bene­dikts­son, rektor Há­skóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lægra leiguverð á herbergjum

Í nýju stúdentagörðunum verða ein­stak­lings- og para­í­búðir ásamt her­bergj­um með sér baðher­bergi en sam­eig­in­legu eld­húsi og stofu. Ragna segir slík herbergi með sameignlegri aðstöðu þekkt víða erlendis en hafi kannski verið minna um þau á Íslandi

„Það er liður í því að lækka leiguverð, sem er mjög kærkomið“, segir Ragna en leiguverð herbergja verður lægra en leiguverð íbúða. „Við viljum helst að allir sjái sér fært að leigja á stúdentagörðum“, segir Ragna. Ragna bætir við að í dag sé verið að þjónusta um 10% stúdenta við HÍ en víða erlendis er hlutfallið 15% og jafnvel hærra.

Herbergin geta einnig hjálpað til við að byggja upp samfélag á stúdentagörðunum, þar sem nemendur deila bæði eldhúsi og stofu. Slíkt geti til dæmis gagnast þeim sem koma utan að landi eða erlendis frá. „Það getur oft verið jákvætt að deila einhverskonar sameiginlegri aðstöðu til þess að mynda tengsl við aðra nemendur sem kjósa að sækja um slíkar einingar“, segir Ragna að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert