„Þetta er alþekkt í fluginu“

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Icelandair tekur á sig kostnað við þjálfun nýliða gegn samkomulagi um starf þeirra í ákveðinn tíma. Þetta er alþekkt í fluginu með flugmenn og fleiri stéttir,“ segir Guðjón Arn­gríms­son, upp­lýs­inga­full­trúi Icelanda­ir, í samtali við mbl.is.

Eins og áður kom fram skrifa nýir flugmenn hjá Icelanda­ir upp á skulda­bréf að and­virði 60 þúsund evr­ur, 7 millj­ón­ir ís­lenskra króna. Þar með skuld­binda þeir sig til þess að yf­ir­gefa ekki Icelanda­ir næstu þrjú árin, nema þeir greiði and­virði skulda­bréfs­ins.

Guðjón segir að um sé að ræða samkomulag sem báðir aðilar skrifi undir í fullri sátt. „Þetta snýst um það að kjósi viðkomandi að hætta og nýta þjálfunina hjá öðrum þá taki sá á sig hluta af þessum kostnaði.“

Spurður að því hvort flugmennirnir skrifi undir samninginn í fullkominni sátt eða hvort þeir hafi val um eitthvað annað segir Guðjón þetta einfaldlega vera samkomulag. „Ef þú hefur störf hjá okkur þá ferðu í gegnum þjálfun sem Icelandair kostar gegn því að þú skuldbindir þig til að starfa í ákveðinn tíma.“

Guðjón segir Icelandair hafa byrjað á þessu samkomulagi fyrir stuttu síðan vegna hins öra vaxtar sem fyrirtækið er í. „ Við erum að ráða mikið af nýliðum og þar á meðal er að koma inn töluverður fjöldi af útlenskum flugmönnum. Þessir hlutir eru að breytast og eðlilegt að einn hlutur gangi yfir alla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert