Ákærður fyrir manndrápstilraun

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem er grunaður um tilraun til manndráps með því að hafa stungið mann í höfuðið með hnífi. Manninum, sem hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í mars, er gert að sæta gæsluvarðhaldi til 21. júlí. Manninum er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi vegna alvarleika brotsins og vegna almannahagsmuna.

Í DV í síðustu viku er haft eftir föður mannsins, Hjalta Úrsus Árnasyni, að sonur hans sé saklaus og að hann, Árni Gils, hafi verið að verja sig. 

Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að mál þetta hafi borist héraðssaksóknara frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 18. maí en Árni Gils sé sterklega grunaður um að hafa veist að manni utandyra í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 5. mars og stungið hann með hnífi í höfuðið. Með ákæru héraðssaksóknara frá 26. maí sé ákærða gefin að sök tilraun til manndráps og geti varðað allt að ævilöngu fangelsi og ekki skemmra en 5 ára fangelsi og því ljóst að um mjög alvarlegt brot sé að ræða.

Árni Gils neitaði sök hjá lögreglu og við þingfestingu málsins sem fór fram 8. júní. Verjandi hans hefur óskað eftir frekari gagnaöflun og mun næsta fyrirtaka málsins fara fram á föstudag og hafi því ekki verið ákveðin dagsetning fyrir aðalmeðferð.

Samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara er sterkur grunur um að ákærði hafi stungið manninn með hnífi í höfuðið, þeir hafi átt í átökum hvor við annan. Þetta byggir á framburði fórnarlambsins og vitnis sem eigi vinatengsl við ákærða.

„Að mati ákæruvaldsins fá framburðir þeirra stoð í áverkavottorði læknis sem lýsi þeim áverkum sem brotaþoli hafi hlotið umrætt sinn og sem einnig sé lýst í ákæru. Þar komi m.a. fram að brotaþoli hafi verið með skurð á höfði og slagæðarblæðingu úr höfuðleðri og hafi áverkinn náð í gegnum fulla þykkt höfuðkúpunnar auk þess sem það hafi flísast upp úr höfuðkúpunni.

Greini læknir einnig frá því í læknisvottorði að ef eggvopnið hefði gengið inn í heilavefinn hefði ekki verið að sökum að spyrja og áverkinn getað leitt til mikils varanlegs tjóns og jafnvel dauða.

Að mati ákæruvaldsins bendi þessir áverkar brotaþola til þess að hnífi hafi verið beitt af miklu afli í átt að höfði hans. Framburður ákærða hafi verið á þann veg að til átaka hafa komið milli hans og brotaþola og ákærði að lokum náð hnífi af brotaþola, sem brotaþoli hafi komið með á vettvang. Ákærði hafi síðan kastað hnífnum í burtu.

Ákærði hafi hins vegar ekki getað útskýrt með hvaða hætti brotaþoli hafi fengið þá áverka sem hann greindist með í kjölfar átakanna við ákærða. Fyrrgreint vitni sem hafi verið sjónarvottur að atvikinu hafi óskað eftir því við lögreglu að fá að gefa aðra skýrslu hjá lögreglu til þess að leiðrétta það sem hún hefði áður borið um að ákærði hafi komið með hnífinn á vettvang og kvað vitnið það ekki rétt heldur hafi það verið brotaþoli sem kom með hnífinn á vettvang. Hafi vitnið talið að hnífurinn hafi fallið á jörðina í átökum ákærða og brotaþola þar sem ákærði hafi tekið hann upp og stungið brotaþola,“ segir í gögnum héraðssaksóknara sem lögð voru fram þegar farið var fram á að Árni Gils yrði áfram í gæsluvarðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert