Hippateppi var örlagavaldur í lífinu

Helga Einarsdóttir og Beggi Morthens,
Helga Einarsdóttir og Beggi Morthens, mbl.is/Árni Sæberg

Ólíklegustu hlutir geta leitt fólk saman, en tvö hippateppi leiddu þau Helgu og Begga saman forðum. Nú mörgum árum síðar eru þau enn með slík teppi í höndunum, miðla þeim til annarra, því þau reka saman tvær verslanir, í Hafnarfirði og nú nýlega einnig í Reykjavík, þar sem hippavörur frá Nepal og öðrum fjarlægum löndum eru í fyrirrúmi. Þau segja það eilífa æfingu að gera sitt besta.

Þegar við Beggi kynntumst á sínum tíma uppgötvuðum við að við áttum samskonar teppi sem við höfðum keypt í hippabúðinni Jasmín, en hún var hér í nágrenninu á horni Barónsstígs og Grettisgötu þegar við vorum ung. Okkur fannst þetta svo rómantískt og litum á það sem tákn, svo við byrjuðum saman upp úr því,“ segir Helga Einarsdóttir þegar hún rifjar upp hvernig leiðir hennar og mannsins hennar, Begga Morthens, lágu saman.

Þau hafa verið saman allar götur síðan hippateppin leiddu þau saman og undanfarin sjö ár hafa þau rekið saman verslunina Kailash við Strandgötu í Hafnarfirði, þar sem þau selja meðal annars hippateppi og hvers konar vörur sem sumir segja hippalegar. Og nú hafa þau opnað útibú í miðbæ Reykjavíkur.

„Beggi er kapteinninn í búðinni í Hafnarfirði en systursonur minn, Þórður Steinar Hreiðarsson, stendur í brúnni hér á Snorrabrautinni. Ég er framkvæmdastjóri yfir þeim báðum og ég stóð fyrir því að þessi nýja búð yrði sett á laggirnar, af því ég var ekki í rónni, mig langaði svo mikið til að vera með búðina okkar líka í miðbæ Reykjavíkur. Margt af því fólki sem býr í miðbænum er ekki með bíl og þarf þá að taka strætó ef það vill koma í búðina til okkar í Hafnarfirði. Mér finnst sjálfsagt að reyna að þjónusta þessa hippa í Reykjavík,“ segir Helga og hlær.

Þegar þau eru spurð hverjir séu þeirra helstu viðskiptavinir í verslunum Kailash segja þau það meðal annars vera hippa, bæði unga og gamla, en sjálf eru þau nokkuð hippaleg.

„Ungu hipparnir versla mikið hjá okkur en hingað kemur fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á að klæðast frjálsum klæðnaði. Jógafólk er líka stór hluti viðskiptavina okkar, enda erum við með vinsælar jógabuxur sem við látum sauma fyrir okkur sérstaklega, og teppin okkar henta líka vel í jóga. Við erum með fjölbreyttar hugleiðsluvörur, reykelsi, olíur og fleira, og djásnin okkar núna eru svokallaðir hugleiðslupúðar, en í þeim er bókhveiti. Fólk situr á þessum púðum þegar það hugleiðir.“

Þrátt fyrir að nýja búðin sé í miðbæ Reykjavíkur segja þau ferðamenn ekki vera í meirihluta viðskiptavina.

„Þeir reka mikið inn nefið til að skoða og spyrja til vegar, en þeir kaupa lítið. Ég ætla mér að lokka þá til að versla meira hjá mér, ég þarf að gera áætlun um hvernig ég fer að því,“ segir Helga og hlær.

Allt gerist af ástæðu

Kailash-verslanirnar eru báðar að hluta til partur af búddískri lífssýn Begga, en Helga segir búðina sína á Snorrabrautinni hugsaða í víðara samhengi.

„Hér er tónlistin hærra stillt og meira tempó, á meðan það er rólegra andrúmsloft í búðinni hjá Begga í Hafnarfirði. Þórður Steinar er kaffigúrú og hellir upp á kaffi fyrir viðskiptavini hér í Reykjavík en í Hafnarfirði býður Beggi upp á te,“ segir Helga og bætir við að hún sé ekki eins formleg og Beggi í því að iðka búddisma. Beggi hefur iðkað hann í tæpa þrjá áratugi en hann gerðist formlega búddisti með skírteini fyrir rúmum tíu árum.

„Hugsunin í búddisma er sú að allt gerist af einhverri ástæðu og við eigum að vera ábyrg fyrir því sem gerist, ekki kenna öðrum um. Við eigum að vera æðrulaus í að taka því sem að höndum ber, eins og okkur er framast unnt. Þetta er stöðug áskorun, ég er alltaf að reyna að bæta mig. Það fer eftir dagsforminu hverju sinni hvernig mér tekst til, það er mikið að gera í vinnunni en ég reyni að halda jafnvægi í daglegu amstri. Að gera sitt besta, það er eilíf æfing.“

Kuldi reyndi að læsa klóm

Beggi fór til Nepal og Tíbet árið 2009 en margt af því sem fæst í Kailash kemur einmitt þaðan, má þar nefna undurhlý teppi.

„Þegar ég var í klaustrinu í Nepal þá bjargaði svona teppi nánast lífi mínu, því það var svo ískalt þarna. En ég gat sveipað teppinu um mig til að koma í veg fyrir að kuldinn læsti í mig klónum. Þegar ég sel svona teppi hér heim þá get ég miðlað heiðarlega af eigin reynslu. Ég vil ekki selja eitthvað sem ég myndi ekki kaupa sjálfur.“

Helga og Beggi vonast til þess að eftir nokkur ár verði þau ekki eins bundin í búðunum og nú er, og geti þá farið oftar á flakk til Indlands og Nepal til að sækja vörurnar frá fyrstu hendi. „Það skiptir máli að fara sjálfur á staðinn. Og við látum búa ýmsilegt til fyrir okkur. Maður þarf að vera stanslaust á tánum við að reyna að þróa vörurnar, reyna að betrumbæta,“ segir Helga sem heklar húfur sem eru til sölu í búðinni og hún býr til perlufestar og armbönd úr efnivið frá Nepal.

„Ég sauma líka ponsjó sem við seljum, en ég tók við þeirri vinnu af Ingu vinkonu okkar Óskarsdóttur, hún saumaði áður fyrir okkur og tók hugmyndina lengra, litaði efni og hvað eina. Þegar Inga lést fyrir tæpu ári, þá tók ég við þessari vinnu, af því við áttum efni sem við vorum búin að kaupa í þessi ponsjó. Inga hefði orðið fimmtug núna í lok júní, og okkur finnst fallegt að minnast hennar með þessum hætti, hún var mikið tengd okkur og vann oft fyrir okkur í búðinni í Hafnarfirði.“

Bjöggi stóð bara í gættinni

Þau segjast hafa eignast vini í gegnum Kailash-búðirnar sínar, enda leggja þau mikið upp úr persónulegri þjónustu.

„Það skiptir máli hvernig tekið er á móti fólki sem kemur inn í verslun, það þarf að vera gagnkvæm virðing og fólk þarf að gefa af sér. Beggi gefur sér alltaf góðan tíma til að spjalla við viðskiptavinina og fólk kann vel að meta það,“ segir Helga og rifjar upp þegar Björgvin Halldórsson kom eitt sinn í verslunina í Hafnarfirði þegar Inga var að leysa þar af.

„Að sögn Ingu þá stóð Bjöggi bara í dyragættinni og skimaði eftir Begga, hann vildi ekki koma inn fyrst Beggi var ekki þar til að spjalla,“ segir Helga og bætir við að ungi maðurinn frændi hennar, Þórður Steinar, hafi nú þegar laðað að marga fastakúnna á Snorrabrautinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert