Óvenjumargar steypireyðar á Skjálfanda

Steypireyður á Skjálfanda. Háir strókar sem þessi einkenna gjarnan blástur …
Steypireyður á Skjálfanda. Háir strókar sem þessi einkenna gjarnan blástur steypireyða. Ljósmynd/Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants.

Óvenjumargar steypireyðar hafa sést í Skjálfandaflóa að undanförnu. Háir blástrar hafa blasað við farþegum hvalaskoðunarbáta á Skjálfanda þar sem sást til hvorki meira né minna en sex dýra í fyrradag. Þykir það óvenjumikið í einni og sömu ferðinni en þar á meðal var kýr með kálf. Dýrin eru þó heldur seinna á ferðinni í ár en venjulega.

„Það voru sex dýr sem sáust í einni ferð í fyrradag,“ segir Huld Hafliðadóttir, verkefnastjóri hjá Hvalasafninu á Húsavík, í samtali við mbl.is. Steypireyðar halda sig yfirleitt ekki í hópum að sögn Huldar en það á einnig við um dýrin sex sem sést hafa á stangli um Skjálfanda síðan þau mættu aftur á svæðið fyrir skömmu í leit að æti.

„Steypireiðarnar hafa yfirleitt verið að koma við í júní en eru frekar seint á ferðinni núna. Það sást alla veganna eitt dýr í mars og síðan eiginlega ekkert meira. En þau komu núna bara fyrir nokkrum dögum nokkuð margar inn í flóann,“ segir Huld.

Til viðbótar við steypireyðar hefur einnig verið nokkuð um hnúfubak og þá hafa einnig sést langreyðar, hrefnur og höfrungar, þá helst blettahnýðir, en það eru helstu tegundirnar sem sjást á Skjálfanda.

Rannsaka hljóð steypireyða

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík sérhæfa sig í rannsóknum á hvölum en að sögn Huldar styðja bæði rannsóknarstarfsemin og hvalaskoðunarferðir fyrirtækja hvort við annað.

„Hvalaskoðunarbátarnir veita þennan vettvang til að rannsaka hvalina, þá fer rannsóknarfólk sem sagt með í hvalaskoðunarferðir. Svo auka rannsóknir líka á gæði starfseminnar og þær upplýsingar sem er boðið upp á í hvalaskoðunarferðum; nýjustu upplýsingar og vitneskju um hvalina,“ segir Huld. Rannsóknarsetrið vinnur nú til að mynda að stórri rannsókn á hljóðum steypireyða.

Til rannsóknarinnar eru meðal annars notuð neðansjávarupptökutæki en tilgangur rannsóknarinnar er að kanna viðbrögð dýranna við afspilun lágtíðnihljóða úr stórum neðansjávarhátalara. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Háskólann í Hannover, Háskólann í Suður-Danmörku og Tom Akamatsu frá Japönsku fiskveiðistofnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert