Svo ölvaður að hann komst ekki út úr bílnum

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Ökumaður sem lögreglan stöðvaði á Fiskislóð í gærkvöldi var svo ölvaður við aksturinn að hann komst ekki út úr bifreiðinni hjálparlaust. Hann var jafnframt að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar og ekki í öryggisbelti. Átta ökumenn, fjórir karlar og fjórar konur, voru stöðvaðir í gærkvöldi og nótt vegna aksturs undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna.

Tveir voru teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna af lögreglunni á Suðurnesjum í nótt.

Bifreið var stöðvuð á Reykjanesbraut um níuleytið í gærkvöldi eftir að bifreiðinni hafði verið ekið af Lækjargötu inn á Reykjanesbraut á móti umferð. Ökumaðurinn var grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum lyfja og kom læknir á lögreglustöð til að meta hæfni ökumanns til aksturs. Ökumaðurinn var metinn óhæfur til aksturs af lækninum.

Síðdegis í gær stöðvaði lögregla ökumann á Njálsgötu sem var sviptur ökuréttindum en hann hefur ítrekað verið stöðvaður próflaus undir stýri.  

Um kvöldmatarleytið var ökumaður sem er grunaður um ölvun undir stýri stöðvaður á Eiríksgötu af lögreglu. 

Lögreglan stöðvaði för próflauss ökumanns á Sæbraut um hálftíu í gærkvöldi og um tveimur tímum síðar var bifreið stöðvuð á Langholtsvegi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Bifreið stöðvuð í Iðufelli rúmlega tvö í nótt en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og að aka sviptur ökuréttindum.

Á þriðja tímanum í nótt var för ökumanns stöðvuð á Kringlumýrarbraut en hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Skömmu síðar var annar ökumaður, sem var einnig undir áhrifum fíkniefna, stöðvaður á Miklubraut. 

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar á Sæbraut um fjögurleytið í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert