Dæmdur fyrir að ganga berserksgang

Manninum verður ekki gerð frekari refsing í málinu.
Manninum verður ekki gerð frekari refsing í málinu. mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann á þrítugsaldri fyrir að hafa gengið berserksgang innandyra í íbúðarhúsnæði á Suðurlandi í desember 2014. Manninum er gefið að sök að „hafa lamið og sparkað í hurðir og húsbúnað, velt innanstokksmunum um koll og stungið með eggjárni í hurðir og veggi allt með þeim afleiðingum að klósettkassi á forstofusalerni brotnaði svo vatn flæddi um gólf, rúða brotnaði í útidyrahurð, sjö innihurðir og karmar brotnuðu eða skemmdust auk þess sem fatahengisslá, stóll og bókahilla skemmdust og blóð barst í gólfteppi hússins.“

Samkvæmt lögregluskýrslu, sem lögð var fram fyrir dómi barst lögreglu þann 14. desember 2014 kl. 06:40 tilkynning um mann sem væri að ganga berserksgang að í íbúðarhúsnæði í Ölfusi á Suðurlandi. Sá sem tilkynnti um atvikið hafði lokað sig af inni í herbergi á efri hæð hússins ásamt öðrum en ákærði var brjálaður fyrir utan dyrnar með skrúfjárn í hendi, berjandi á hurðina svo það stakkst inn í gegn í hvert skipti.

Blóðslóð um alla íbúð

Þegar lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir talsvert blóð í tröppum að útidyrahurð og gler var brotið í hurðinni. Lögreglumenn fóru inn í húsið með kylfur og varnarúða á lofti. Þar sáu að búið hafi verið að brjóta vatnskassa á salerni og stærðargat á hurð inn í eitt herbergi íbúðarhúsnæðisins. Blóðslóð var um alla íbúðina greinilegt var að einhver hafi gengið berserksgang innandyra, búið hafi verið að brjóta og bramla flest allt á neðri hæð hússins.

Í eldhúsi voru hnífapör út um allt á gólfinu ásamt blóðugu skrúfjárni. Inn úr eldhúsi höfðu þrjár stelpur lokað sig inn í herbergi og voru í miklu uppnámi. Þær tjáðu lögreglu að ákærði væri líklega á efri hæð hússins.

Ákærði sagði fyrir dómi að hann myndi ekki eftir að hafa gengið berserksgang í íbúðinni. Hann hefði komið seint um kvöld að íbúðarhúsinu eða rétt eftir miðnætti og farið að hlusta á tónlist, farið í drykkjuleik með landa og síðan hafi hann sofnað í sófa í stofu undir morgun að því er hann hélt, en hann hafi þá verið búinn að drekka nokkuð mikið. „Hann hafi síðan ekkert hafa vitað fyrr en hann hafi vaknað í  handjárnum. Hann kvaðst hafa verið kýldur en hann kvaðst ekki muna eftir því og ekki vita hver hefði verið þar að verki. Hann kvaðst hafa legið í glerbrotum þegar hann vaknaði og hefði hann sennilega fengið skurði á hægri ökkla  og vör vegna þess,” segir í dómnum.

Ekki gerð frekari refsing

Fjölmörg vitni komu fyrir dóminn og lýstu atvikum, sem voru þannig að ákærði hafi verið kýldur með þeim afleiðingum að hann rotaðist. Hann hafi verið mjög reiður þegar hann rankaði úr rotinu og „farið að leita að þeim sem sló hann og valdið þeim skemmdum á íbúðinni sem lýst er í ákæru og sjá má af myndum sem lögreglan tók á vettvangi.“

Ákærði á sér töluverða brotasögu, en síðan atvikið átti sér stað hefur ákærði fengið fimm refsidóma og er það niðurstaða dómsins að manninum verði gerður hegningarauki vegna brotsins, en ekki frekari refsing. Sér í lagi vegna þess hve langur tími leið frá því að rannsókn á málinu lauk og þangað til ákæra var gefin út. „Ekki verður betur séð en að rannsókn málsins hafi lokið í janúar 2015 en ákæra var ekki gefin út fyrr en 14. október 2016. Með hliðsjón af framansögðu þykir mega ákveða að ákærða verði ekki gerð frekari refsing í máli þessu,“ segir í dómnum.

Manninum er engu að síður gert að greiða allan sakarkostnað í málinu, þar með talinn útlagðan kostnað og málsvarnarlaun verjanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert