LSS fagnar skýrslu um sjúkraflug

LSS fagnar útkomu skýrslu fagráðs sjúkraflutninga Íslands varðandi sjúkraflug með …
LSS fagnar útkomu skýrslu fagráðs sjúkraflutninga Íslands varðandi sjúkraflug með þyrlum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, LSS, vill árétta að með tilkomu skýrslu fagráðs sjúkraflutninga Íslands varðandi sjúkraflug með þyrlum og umræðu um sjúkraflug, líti LSS ekki svo á „að kastað sé rýrð á aðila þá og stofnanir sem sinna sjúkraflugi.“ Þetta kemur fram ályktun frá LSS en undir hana ritar Stefán Pétursson, formaður LSS.

LSS fagnar útskomu skýrslunnar og lítur á hana sem þarft innlegg í umræðu um eflingu utanspítalaþjónustu á Íslandi.

„Lengi hefur verið rætt um kosti þess að bæta í þyrluflota Íslendinga sérhæfðum sjúkraþyrlum og fylgja þannig fordæmi annarra þjóða. LSS vill árétta sérstaklega að með tilkomu þessarar skýrslu og umræðu um sjúkraflug líti LSS ekki svo á að kastað sé rýrð á aðila þá og stofnanir sem sinna sjúkraflugi, hvort sem er með þyrlum eða fastvængjum, þeirri vinnu sé sinnt af fagmennsku og öryggi," segir í ályktuninni.

Þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að vel mannaðar og sérhæfðar sjúkraþyrlur, til viðbótar við björgunarþyrlur Landhelgisgæslu Íslands og sjúkraflugvélar Mýflugs, gætu unnið saman í heilbrigðiskerfi íslendinga utanspítala.

Frétt mbl.is: Undirbúningur hafinn vegna útboðs á þyrlum

Ályktun LSS í heild sinni

„Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) fagnar útkominni skýrslu fagráðs sjúkraflutninga Íslands varðandi sjúkraflug með þyrlum.

LSS lítur á skýrlsuna sem þarft innlegg í umræðu um eflingu utanspítalaþjónustu á Íslandi. Lengi hefur verið rætt um kosti þess að bæta í þyrluflota Íslendinga sérhæfðum sjúkraþyrlum og fylgja þannig fordæmi annarra þjóða.

LSS vill árétta sérstaklega að með tilkomu þessarar skýrslu og umræðu um sjúkraflug líti LSS ekki svo á að kastað sé rýrð á aðila þá og stofnanir sem sinna sjúkraflugi, hvort sem er með þyrlum eða fastvængjum, þeirri vinnu sé sinnt af fagmennsku og öryggi.

LSS telur hins vegar að ekki sé lengur hægt að horfa framhjá því að svokallað HEMS (helicopter emergency medical service) yrði mjög veigamikill og álitlegur hlekkur í þeirri mikilvægu öryggiskeðju sem utanspítalaþjónustan er, ásamt þeim einingum sem fyrir eru. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að vel mannaðar sérhæfðar sjúkraþyrlur til viðbótar við öflugar björgunarþyrlur Landhelgisgæslu Íslands og sjúkraflugvélar Mýflugs gætu unnið saman sem sterk og örugg tannhjól í heilbrigðiskerfi íslendinga utanspítala.

Það er vel þekkt erlendis og hefur gefist afar vel að reka sérhæfðar sjúkraþyrlur með sérhæfðri heilbrigðisáhöfn samhliða ýmist landhelgisgæslu og/eða her. Jafnframt er vel þekkt farsælt samstarf þessara aðila þar sem aðeins eitt hefur forgang, öryggi sjúklinga.

Það er í raun aðdáunarvert að skoða þróun HEMS eininga í öðrum löndum og sjá hve mikilvægar einingar þær eru í utanspítalaþjónustum annarra landa. Áhafnir þessara eininga, sem samanstanda af sérhæfðum læknum, bráðatæknum og hjúkrunarfræðingum, eru færar um og þjálfaðar til að veita sérhæfð lífsbjargandi inngrip á ögurstundu jafnframt því að vera öflugar og skilvirkar stoðeiningar fyrir lækna og sjúkraflutningamenn í héraði.

LSS styður því framkomna skýrslu fagráðs sjúkraflutninga Íslands og bindur vonir við að hún leiði af sér frekari faglega uppbyggingu íslenskrar utanspítalaþjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert