Útgjöld á hvern nemanda hækka

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði fram fyrirspurn til fjármála- …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um kjarasamninga kennara. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þrátt fyrir lækkun á framlögum til framhaldsskólastigsins aukast útgjöld á hvern nemanda um sem nemur 3–5% á ári að raunvirði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um kjarasamninga kennara.

Björn Leví spurði meðal annars um kostnað af nýlegum kjarasamningum kennara og um árlega sparnaðar- og hagræðingarkröfu kjarasamninga kennara og hvernig hann skiptist eftri viðsemjendum og skólum.

Í svari ráðherra er gengið út frá því að spurt sé um kjarasamning framhaldsskólakennara en síðasti samningur við Kennarasamband Íslands vegna kennara við ríkisrekna framhaldsskóla var undirritaður árið 2014 með gildistíma út október 2016. Kostnaðarmat þess kjarasamnings var í heildina um 30% auk þeirra hækkana sem til komu á tímabilinu vegna tengingar við almennar launahækkanir.

Framlög lækka vegna styttingar framhaldsskóla

Hvað varðar sparnaðar- og hagræðingarkröfu hvers kjarasamnings kennara og hvernig hann skiptist eftir viðsemjendum og skólum svarar ráðherra því til að síðasti kjarasamningur hafi falið í sér þríþætta breytingu sem leiddu til sértækra launabreytinga. Þó reiknað væri með að kostnaður lækki vegna hagræðingarmöguleika sem leiða af breytingunum sé ekki um hagræðingar- eða sparnaðarkröfu að ræða að því er segir í svari ráðherra.

Samkvæmt fjármálaáætlun 2018 til 2022 er gert ráð fyrir að framlög til framhaldsskólasviðsins verði nær óbreytt árið 2018 og að raungildi en lækki eftir það um 0,6% árlega. Svarar það til 630 milljónum króna, uppsafnað á árunum 2018 til 2022. Gert er ráð fyrir því í fjármálaáætlun að talsverður sparnaður komi fram í framhaldskólakerfinu vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú en sá sparnaður endurspeglist í lægri framlögum til málefnasviðsins.

Ekki forsendur til að svara fyrirspurn um launabætur

Þá spurði Björn Leví einnig um launabætur og aðrar greiðslur ríkissjóðs til kostnaðarhækkana sem í samnigunum felast, og um ástæður þess að skólastjórnendur telji sig ekki fá þær launabætur sem kjarasamningar feli í sér að þeirra mati. Kallað var eftir svörum ráðherra við því hvaða ástæðu hann teldi vera fyrir mismunandi túlkun hans og skólastjórnenda á fjárhæð launabóta.

Í svari ráðherra kemur fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi ekki samantekt á gagnrýni skólastjórnenda né forsendur til að meta þær. Þá sé ráðuneytinu ekki heldur kunnugt um að skólastjórnendur hafi sett fram formlega hvað þeir telji sig eiga að fá í launabætur.

Loks var spurt um hve háum fjárhæðum er varið í árleg framlög til skóla- og námsþróunar, skipt eftir kjarasamningum, og hvort ráðherra telji þær áherslur sem markaðar eru í kjarasamningum kennara séu til þess fallnar að þróa og bæta skólastarf í samræmi við menntastefnu stjórnvalda. Í svari ráðherra við þeirri fyrirspurn segir að aukinn sveigjanleiki og möguleikar til þróunar skólastarfs séu megininntak kjarasamninga og skapi þannig möguleika til að útfæra áherslur stjórnvalda í menntamálum.

Sjá má svör fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn þingmanns í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert