Hugnast ekki gámabyggð

Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Eggert

Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir það ekki rétt að aldrei hafi verið fleiri á biðlista eftir félagslegum íbúðum en nú, en árið 2003 hafi þeir verið jafn margir og í dag. Það dragi þó ekki úr alvarleika málsins.

Velferðarráði barst nýverið bréf frá Barnaheillum, þar sem lýst var áhyggjum af börnum í þeim húsnæðisvanda sem borgin glímir við, en ráðið hefur óskað úttektar á stöðu barnafólks sem er á biðlistanum.

Ráðinu er ekki kunnugt um barnafjölskyldur sem búi í iðnaðarhúsnæði í borginni.

Áætlanir borgarinnar raskast

Ilmur segir flesta á biðlistanum einstaklinga í leit að eins til tveggja herbergja íbúðum.

„Það er áætlun um að fjölga félagslegum íbúðum um 100 á ári. Það hefur staðist þangað til í ár. Félagsbústaðir eru ekki á plani í ár af því það er erfitt að kaupa og þá sérstaklega þessar litlu íbúðir sem mest eftirspurn er eftir,“ segir hún.

„Við sjáum fram á fjölgun þó það sé ekki að gerast akkúrat núna, en það er bara vegna skorts á húsnæði,“ segir hún.

Ilmur er ekki hlynnt hugmyndum um að fólkið fái gáma til að búa í til bráðabirgða. Hún nefnir að áhersla borgarinnar sé á félagslega blöndun.

„Það hefur ekki verið vilji fyrir því að byggja einhverja gámabyggð. Sagan hefur hreinlega kennt okkur það að það séu mjög vond úrræði,“ segir hún og nefnir að slík úrræði geti haft í för með sér „stimplun“ sem geti varað um kynslóðir.

„Það er alveg rétt að það er ákall eftir þessu, en það er mjög viðkvæmt hve miklar bráðabirgðalausnir við ráðumst í. Það hefur sýnt sig að fljótfærnislegar lausnir draga oft dilk á eftir sér,“ segir Ilmur.

Spurð hver úrræði borgin veiti þeim sem eru á biðlistanum svarar hún því að borgaryfirvöld veiti leigjendum í félagslegum erfiðleikum sérstakan stuðning.

„Fólk er kannski ekki á götunni þó það sé á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Við erum auðvitað að veita sérstakan húsnæðisstuðning, þannig að ef fólk er í félagslega erfiðri stöðu og leigir á almennum leigumarkaði, þar sem það borgar háa leigu, á það rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi frá Reykjavíkurborg,“ segir hún.

Vill heldur varanlegar lausnir

Elín Oddný Sigurðardóttir, varaformaður velferðarráðs, segir borgina vinna að lausn húsnæðisvandans með fjölþættum hætti. Samhliða því að vinna að verulegri fjölgun félagslegra leiguíbúða sé til dæmis einnig unnið að aðkomu borgarinnar að almennu íbúðafélagi ASÍ, Bjargi, í formi stofnstyrkja.

Spurð hvort sú lausn leysi þann vanda sem nú sé fyrir hendi, segir hún að hlutina þurfi að meta heildstætt. Sjálfri hugnist henni ekki gámabyggð eða félagslega einsleit hverfi. „Reynslan sýnir að það kostar samfélagið gríðarlegan pening,“ segir hún.

„Ég held að með samstilltu átaki og því að allir axli ábyrgð, ekki síst ríki og sveitarfélög saman, og flýti uppbyggingu húsnæðis, þá sé hægt að finna lausnir sem eru varanlegri og boðlegar fólki. Auðvitað getur alltaf komið upp sú staða að það þurfi að leysa vanda fólks til skemmri tíma, en ég er ekki viss um að gámabyggð sé heppilegasta leiðin,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert