Fresta gjaldtöku við Hraunfossa

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Ákveðið hefur verið að fresta gjaldtöku við bílastæðið við Hraunfossa í nokkra daga vegna lagalegrar óvissu um rétt til innheimtunnar. Áætlað var að hefja gjaldtökuna kl. 8 í morgun en vegna andstöðu Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar og veitingamanns á svæðinu verður það ekki gert.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdaaðilum og landeigendum við Hraunfossa.

„Eins og kom fram í fjölmiðlum í gær fékkst úthlutaður styrkur úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til að stækka bílastæðið við Hraunfossa. Landeigendur höfðu ekki frumkvæði né vissu um beiðnina til styrksins, hefur hann ekki verið nýttur og verður ekki nýttur ef leyfi fæst til töku aðstöðugjaldsins.

Framkvæmdaaðilar verkefnisins vilja koma á framfæri að mikil þörf er á að bæta bílastæðið og umhverfið við fossana. Ársskýrslur Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða styðja það álit og segir til dæmis í skýrslu stofnunarinnar frá árinu 2013: „Bílastæði eru orðin afskaplega illa farin og subbuleg“.

Strax eftir helgi ætla framkvæmdaaðilar og landeigendur að óska eftir fundi með Umhverfisstofnun til að ræða ástandið við Hraunfossa og vonandi finnst lausn svo hægt verði að gera svæðið öruggara og fallegra fyrir þá ferðamenn sem þangað koma,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert