MAST hvetur til málefnalegrar umræðu

Sjókvíar Fiskeldis Austfjarða.
Sjókvíar Fiskeldis Austfjarða. mbl.is/Helgi Bjarnason

Það er mat Matvælastofnunar að mikilvægt sé að fyrirhyggja og ábyrgð ráði för í áætluðum vexti fiskeldis og að umræða um greinina sé málefnaleg og þannig að ólík sjónarmið komi fram og verði vegin og metin.

Þetta kemur fram í formála Jóns Gíslasonar, forstjóra Matvælastofnunar, að ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2016.

Þar segir hann að MAST hafi fengið það hlutverk að annast útgáfu rekstrarleyfa til fiskeldis, auk eftirlits með búnaði og rekstri. Það sé hins vegar ráðamanna að marka stefnu um vöxt greinarinnar.

Í formálanum kemur Jón einnig inn á heildarendurskoðun á lögum og reglum um dýravelferð.

„Ný löggjöf nær yfir allt búfé, loðdýr, gæludýr og nú einnig aðbúnað og velferð dýra í flutningi. Hertar kröfur eru á ýmsum sviðum og er innleiðing þeirra áskorun fyrir marga dýraeigendur. Það sama á við þá sem falið er eftirlit og eftirfylgni. Mikilvægt er að eyða tortryggni í garð þessara aðila, því það kostar bæði fjármagn og tíma að gera nauðsynlegar breytingar til að uppfylla nýjar kröfur og tryggja góðan aðbúnað og velferð dýra,“ segir hann.

Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar.
Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert