Segir biðina sársaukafulla fyrir alla

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi og talskona Hjallastefnunnar.
Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi og talskona Hjallastefnunnar. mbl.is/Golli

„Ekkert fær lýst harmi mínum og sorg gagnvart öllum málsaðilum,“ skrifar Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi og talskona Hjallastefnunar, í Facebook-færslu sem hún birti fyrir stundu en tilefnið er ofbeldisásakanir gegn tveimur starfsmönnum Hjallastefnunnar.

Í færslunni greinir Margrét frá því að könnun standi yfir hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur á því hvort starfsmennirnir tveir, sem störfuðu hjá barnaskóla Hjallastefnunnar í Öskjuhlíð, hafi í samskiptum við börn sýnt af sér atferli sem er „stórlega ábótavant“ svo vitnað sé í lög um barnavernd.

Hún segir biðina eftir niðurstöðum nefndarinnar sársaukafulla fyrir alla hlutaðeigandi.

Upplýsingar um þetta mál bárust mér eftir skólaslit og útskrift viðkomandi barna, því miður, og gripum við samdægurs til aðgerða samkvæmt starfsreglum okkar. Þar á meðal voru umræddir starfsmenn tafarlaust settir í leyfi frá skólastarfi enda njóta börn alls vafa ef grunur vaknar. Allir starfsmenn skólans glíma nú við áfallið sem fylgir í kjölfarið og allir foreldrar og nemendur taka málið einnig mjög nærri sér,“ segir Margrét Pála m.a.

Könnun Barnaverndarnefndar og rannsókn lögreglu taka oft langan tíma sem við verðum að sýna skilning því að vinna þarf málið vandlega til að skýr niðurstaða fáist. Biðin er þó erfið og sársaukafull fyrir alla hlutaðeigandi svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Gildir það jafnt um þá sem mögulega hafa sýnt af sér atferli sem er ábótavant sem og þau börn og foreldra sem málið snýst um. Ekkert fær lýst harmi mínum og sorg gagnvart öllum málsaðilum.

Margrét Pála lýkur færslunni með því að þakka þeim sem hafa sýnt starfsmönnum Hjallastefnunnar skilning og hlýhug. Þá þakkar hún þeim sem „hafa valið að draga andann djúpt og bíða róleg eftir niðurstöðum Barnaverndarnefndar fremur en að bjóða dómstóli götunnar að taka við þessu viðkvæma máli. Það er drengskaparlega gert, ekki síst í samfélagi sem á það til að fara fram í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum með órökstuddar yfirlýsingar og sleggjudóma“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert