Bílstóllinn hafi bjargað lífi barnsins

Bíllinn er skemmdur eftir aftanákeyrsluna.
Bíllinn er skemmdur eftir aftanákeyrsluna. ljósmynd/Böðvar Ingi Aðalsteinsson

Bílstóll með baki varð sjö ára gamalli stúlku til happs þegar hún slapp nánast ómeidd eftir harða aftanákeyrslu á Snæfellsnesi síðastliðinn miðvikudag. Þetta segir faðir stúlkunnar í samtali við mbl.is, en móðir hennar birti myndir af bílnum á Facebook í gær.

Í færslu Jóhönnu Valdísar Torfadóttur, móður stúlkunnar, segir að viðbragðsaðilar hafi haft orð á því að bílstóllinn hafi mögulega bjargað lífi stúlkunnar. Mörg börn á hennar aldri séu hætt að nota stól þrátt fyrir að hafa hvorki náð hæð né þyngd til að sleppa stólnum. 

„Hefði þessi öryggisbúnaður (sessa með baki) ekki verið til staðar í hennar tilfelli þá hefðu áverkar hennar og ástand verið mun alvarlegra,“ skrifar Jóhanna.

Stóllinn er heill eftir áreksturinn.
Stóllinn er heill eftir áreksturinn. ljósmynd/Böðvar Ingi Aðalsteinsson

Böðvar Ingi Aðalsteinsson, faðir stúlkunnar, segir í samtali við mbl.is að keyrt hafi verið aftan á bílinn kyrrstæðan á 80 km hraða við afleggjarann að Rifi á Snæfellsnesi. Böðvar hafði stöðvað bílinn þar sem æðarfjölskylda var að fara yfir veginn, og bílinn hafði verið kyrrstæður í rúma mínútu þegar höggið kom. Böðvar segist ekki vita hvað olli því að bílstjórinn fyrir aftan stöðvaði ekki bíl sinn, þar sem hann hefði getað séð að bíll Böðvars var kyrrstæður. 

Við höggið gekk aftursætið þar sem stúlkan sat hálfan metra inn í bílinn. Að sögn Böðvars hefði staðan verið önnur hefði stúlkan verið í sessu án baks, og afleiðingarnar getað orðið mun verri.

Einu meiðslin sem stúlkan hlaut voru mar á hægri öxl og sár á höku sem hún fékk við að skella með höfuðið í höfuðpúða fremra farþegasætisins. Böðvar segir það hafa verið mikinn létti að komast að því að ekki hafi farið verr. „Þetta var ekki skemmtileg lífsreynsla. Maður óskar ekki sínum versta óvini að lenda í þessu,“ segir hann.

ljósmynd/Böðvar Ingi Aðalsteinsson

Böðvar vill brýna fyrir foreldrum að hafa börn sín í stól með baki eins lengi og hægt er. 

Í leiðbeiningum Samgöngustofu kemur fram að börn sem hafa náð 18-25 kílóa þyngd skuli sitja á bílpúða með baki. Yngri börn skuli vera í barnabílstólum. Þá kemur þar fram að ekki sé mælt með notkun bílpúða án baks. 

„Bæði veitir bakið hliðarárekstrarvörn og eins kemur það í veg fyrir að bílpúðinn renni undan barninu. Á bakinu eru auk þess lykkjur eða hök til að festa beltið í sem tryggir að það falli rétt að líkama barnsins. Bílpúða með baki skal nota þar til barnið er 36 kíló eða 10 til 12 ára,“ segir á vef Samgöngustofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert