Dæmd til að greiða Bergvini 900.000

Bergvin Oddsson, fyrrum formaður Blindrafélagsins.
Bergvin Oddsson, fyrrum formaður Blindrafélagsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ummæli fyrrum stjórnar og varastjórnar Blindrafélagsins sem birtust í vantraustsyfirlýsingu á hendur fyrrum formanni félagsins, Bergvini Oddssyni, dauð og ómerk. Þá hafa fyrrum stjórnarmenn verið dæmdir til að greiða Bergvini 900 þúsund krónur í miskabætur með vöxtum og 750 þúsund krónur í málskostnað.

Ummælin sem um ræðir birtust í vantraustsyfirlýsingu frá stjórninni 22. september 2015, þar sem sagði að formaðurinn hefði „vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt“.

Bergvin hafði einnig farið fram á að önnur ummæli í yfirlýsingunni, þ.e. „þá hefur formaður með athæfi sínu misnotað vald sitt og brugðist trausti þessa unga félagsmanns og þar með sýnt af sér siðferðilegt dómgreindarleysi“ yrðu dæmd dauð og ómerk, en dómurinn sýknaði fyrrum stjórnarmennina af þeirri kröfu. 

Stjórnarmennirnir sem um ræðir eru Halldór Sævar Guðbergsson, Baldur Snær Sigurðsson, Rósa María Hjörvar, Lilja Sveinsdóttir, Guðmundur Rafn Bjarnason og Rósa Ragnarsdóttir. 

Hafði áhyggjur af þróun félagsins

Upphaf málsins má rekja til þess að varamaður í stjórn félagsins, sem rak félagið ásamt Bergvini og föður hans, hafði áhyggjur af þróun á rekstri félagsins sem hafði ekki verið í samræmi við það sem hann hafði ætlað. Taldi hann að honum hefði einungis borið að leggja fram stofnframlag við stofnun félagsins og að ekki yrði um frekari greiðslur af hans hálfu að ræða. Þegar Bergvin hafi síðan krafið hann um tvær greiðslur í júlí og ágúst 2015, og boðað frekari fjárútlát, hafi hann fengið bakþanka, orðið áhyggjufullur út af fjárframlagi sínu og viljað losna út úr félaginu, en Bergvin hefði ekki getað veitt honum fullnægjandi svör þegar eftir því hefði verið leitað. 

Í framhaldi af þessu hafði varamaðurinn samband við framkvæmdastjóra félagsins sem fundaði í kjölfarið með stjórninni. Á þeim fundi voru lögð fram gögn um tölvupóstsamskipti Bergvins og varamannsins og afrit af greiðslunum, auk þess sem búið var að afla vottorðs frá hlutafélagskrá um Bergvin. 

Sagði Bergvin hafa haft af sér fjármuni

Í bókun fundargerðar þann 22. september 2015 er í upphafi rakið að ungur félagsmaður sem nýlega hafi misst nánast alla sjón á skömmum tíma hafi „óskað eftir að félagið aðstoðaði hann við að ná til baka (fjármunum) sem hann sagði að formaður Blindrafélagsins hafi haft út úr sér“. Bergvin rakti sína hlið málsins á fundinum en hafði eðli málsins samkvæmt ekki gögn til að leggja fram og óskaði ekki eftir fresti til að leggja fram gögn. Upplýsti hann að hann teldi, að öðru leyti kæmi þetta stjórn Blindrafélagsins ekki við.

Í framhaldi af þessu var frekari dagskrárliðum stjórnar frestað og var ályktun stjórnar fullmótuð og birt sama dag. Boðað var til félagsfundar Blindrafélagsins þann 30. september 2015 þar sem ræða skyldi framkomna ályktun og vantraust. Með fréttatilkynningu, dags. 23. september 2015, hafnaði stefnandi þeim ásökunum sem hann taldi á sig bornar í ályktun stjórnar Blindrafélagsins.

Stjórnin hafi farið offari með framgöngu sinni

Á félagsfundinum þann 30. september 2015 var ákveðið að Bergvin myndi stíga til hliðar og fara í leyfi og að aðalfundi yrði flýtt. Þá var ákveðið af félagsfundi að setja á stofn sannleiksnefnd sem skipuð yrði utanaðkomandi aðilum. Hlutverk þeirrar nefndar væri að fara yfir og skila skýrslu um þann mikla ágreining sem kominn var upp innan Blindrafélagsins. 

Í niðurstöðum skýrslu nefndarinnar segir að það sé mat nefndarinnar að stjórnin hafi farið offari með framgöngu sinni. Sé andmælaréttur bæði grundvallarregla íslensks réttar og grunnur mannlegra samskipta. Hafi stjórnin haft takmarkaðar upplýsingar undir höndum sem í besta falli hafi verið hægt að útskýra sem viðskiptalegan ágreining en í versta falli sem fjárhagslega misnotkun formanns Blindrafélagsins gagnvart yngri félagsmanni.

Ummælin hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttun

Bergvin taldi að með ummælunum hefði verið vegið með alvarlegum hætti að æru sinni. Þar hefði verið notast við einkar harkalegt og óvægið orðalag. Taldi hann ummælin ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum þar sem umræddur félagsmaður hafi af fúsum og frjálsum vilja ákveðið að taka þátt í stofnun fyrirtækis með stefnanda og föður hans.

„Stefnandi hafi engum blekkingum beitt né sýnt af sér háttsemi sem jafna megi við misneytingu. Stefnandi hafi einungis verið að stunda heiðarleg viðskipti í samstarfi við föður sinn og A og sé því enginn fótur fyrir svo svívirðilegum ummælum stefndu.“

Þá segir Bergvin það gefa augaleið að stjórnin hafi haft það eitt að markmiði með framferði sínu að koma höggi á hann „með þungum aðdróttunum og ekki skeytt eigi um æru og mannorð stefnanda. Þá hafi andmælaréttur hans verið virtur að vettugi og honum hvorki gefinn kostur á að gefa skýringar á sinni hlið málsins né að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Sérstaklega sé brýnt að virða rétt til að verjast ásökunum þegar um svo þungar sakir sem þessar sé að ræða.“

Taldi dómurinn að ummælin „vélað ungan félagsmann til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt“ hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda í merkingu 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Voru þau dæmd ómerk að kröfu stefnanda, með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Hér má lesa dóminn í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert