Sagðist vera tæpur í maganum

Frá Hallargarðinum.
Frá Hallargarðinum. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Þorsteinn Björnsson, nemi við Háskóla Íslands, gekk fram á tvo ferðamenn ganga örna sinna í Hallargarðinum aðfaranótt sunnudags. Þorsteinn lét ferðamennina heyra það og benti þeim á að það væri ekki í lagi að gera þarfir sínar þar.

Ferðamennirnir höfðu lagt camper-bifreið við Skothúsveg og höfðu skotist út úr henni til að létta á sér.

„Ég bý í miðbænum og geng yfirleitt í gegnum Hallargarðinn við Skothúsveg á leið heim. Þar blasa við þessi hjón við en ég greip manninn við að ganga örna sinna,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. Hann telur að konan hafi nýlokið við að gera stykkin sín.

Þorsteinn skrifaði á Facebook-síðu sína að svokallaðar camper-bifreiðar, sem ekki væru með innbyggða salernisaðstöðu, væru algjört eitur og bjóði upp á atvik eins og þetta. „Þessir bílar eru ekki hannaðir fyrir ferðamannaþjónustu en það eru engin salerni innbyggð,“ segir Þorsteinn en hann kveðst hafa brugðist reiður við þegar hann sá hvað var í gangi:

„Ég sá þessi hjón og það fýkur dálítið í mig. Ég tek þau tali og spyr hvernig standi á þessu; að þau séu að kúka í þessum virðulega hallargarði. Þau verða vandræðaleg og kallinn segist hafa verið tæpur í maganum og hafi neyðst til þess að fara á bak við eitthvert rjóður. Ég sagði honum að þetta væri alveg til skammar.

Íslendingar bera líka ábyrgð

Þorsteinn segist hafa vakið athygli á málinu á Facebook þar sem þetta sé síður en svo einsdæmi og ábyrgðin sé ekki eingöngu ferðamanna, heldur líka íslendinga, sér í lagi þeim sem leigja út bifreiðar án salernisaðstöðu.

Einnig velti ég upp ábyrgð borgarinnar en vöntun á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn sem ferðast um bæinn hefur verið til umræðu. Þetta býður upp á svona atvik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert