Adolf Ingi hefur sigur í máli gegn RÚV

Adolf Ingi Erlingsson.
Adolf Ingi Erlingsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisútvarpið hefur verið dæmt til að greiða fréttamanninum Adolf Inga Erlingssyni 2,2 milljónir í bætur auk 1,4 milljóna í málskostnað vegna eineltis og uppsagnar, en honum var sagt upp störfum í nóvember 2013. Mbl.is hefur dóminn undir höndum, en hann hefur ekki enn verið birtur á vef héraðsdóms.

Í samtali við mbl.is segir Adolf að um sé að ræða fullnaðarsigur fyrir sig. Segir hann að bæði séu honum dæmdar bætur fyrir einelti og þá komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að  uppsögnin hafi verið ólögleg. Segir í dómnum að RÚV hafi ekki sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppsögninni og því sé hún ólögmæt og að Adolf eigi rétt til skaðabóta.

„Frekar viljað vera laus við að fá yfirmann frá helvíti“

Segist hann að sjálfsögðu vera sáttur með niðurstöðuna. „Maður vill frekar vinna en að tapa, en það er margt sem ég hefði frekar viljað en að fara þessa leið.“

„Í fyrsta lagi hefði ég frekar viljað vera laus við að fá yfirmann frá helvíti,“ segir Adolf. „Í öðru lagi að þáverandi yfirstjórn hefði mátt sýna þann manndóm að takast á við málið þegar það kom upp og í þriðja lagi hefði ég viljað að núverandi útvarpsstjóri hefði meint eitthvað þegar hann sagðist vilja leita sátta í málinu.“

„Fyrst og fremst álitshnekkir fyrir fyrirtæki eins og RÚV“

Ekkert hafi hins vegar orðið um þessa meintu sátt og því hafi hann farið fram með málið. Segir hann að sátt á sínum tíma hefði bæði getað sparað RÚV talsverða fjármuni og niðurlægingu. „Ég tel þetta fyrst og fremst álitshnekkir fyrir fyrirtæki eins og RÚV.“

Í málinu sagði Adolf að ástæður þess að honum var sagt upp þegar farið var í niðurskurð á sínum tíma hafi verið þær að búið var að jaðarsetja hann í fyrirtækinu og leggja í einelti. Hann hefði ekki verið fremstur í röðinni þegar kom að uppsögnum vegna langs starfsaldurs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert