Niðurstaðan ætti ekki að letja konur til lyfjameðferðar

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Lífshorfur kvenna með brjóstakrabbamein hafa lagast mikið á síðustu árum, það byggir að verulegu leyti á þessum fyrirbyggjandi krabbameinslyfjagjöfum sem er verið að veita,“ segir Helgi Sigurðsson, prófessor og starfandi yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítalanum.

Fjallað  var um það í erlendum fjölmiðlum í gær, að samkvæmt niðurstöðum bandarískrar rannsóknar, kunni krabba­meins­lyfjameðferð að gera krabba­meini kleift að dreifa sér og valda nýj­um, ágeng­um æxl­um. Þar sagði jafnframt að rannsakendur hafi kannað áhrif lyfja á brjóstakrabba­meins­sjúk­linga og kom­ist að því að lyfja­gjöf auki lík­urn­ar á því að krabba­meins­frum­ur flytji sig yfir í aðra lík­ams­hluta, þar sem krabb­inn reyn­ist í flest­um til­fell­um ban­vænn.

Helgi segir að varast beri að túlka rannsóknina með þessum hætti enda sé um að ræða tilraunir á músum en ekki fólki. Stærri rannsóknir sem gerðar hafi verið á fólki hafi sýnt fram á að krabbameinslyf minnki áhættuna á endurmeini.

„Í fréttunum er svolítið gefið í skyn að þetta séu tilraunir á fólki en það er það ekki, þetta eru músatilraunir,“ segir Helgi. „Rannsakandi sýnir hér að þegar maður gefur krabbameinslyf við brjóstakrabbameini, sem búið er til í músum, þá virðist eins og það geti orðið illvígara í sumum þeirra,“ útskýrir Helgi.

„Við vitum að frumur geta orðið illvígari en við vitum líka að fyrirbyggjandi krabbameinslyfjagjöf eins og það kallast, hún minnkar líkurnar á endurmeini um þriðjung,“ bætir Helgi við. Niðurstaðan ætti því alls ekki að letja konur til að fá krabbameinslyfjameðferð.

„Við vitum það alveg að krabbameinslyfin þau geta náttúrlega bæði valdið frumuskemmdum og ýmis konar, en það er ekki fótur fyrir þessu,“ segir Helgi. „Ég held að þetta sé ágætis vísindavinna sem þeir eru að stunda, en þetta eru mýs.“

Loks bendir Helgi á að gerðar hafi verið stærri og umfangsmeiri rannsóknir þar sem 200 þúsund konur hafi fengið meðhöndlun með krabbameinslyfjum, þær rannsóknir hafi leitt í ljós að áhætta á endurmeini minnkar um þriðjung með fyrirbyggjandi lyfjagjöf. „Það fer svo eftir því hve áhættan er mikil. Ef kona er í 60% áhættu þá minnkar áhættan niður í 40%, en ef að kona er í 20% þá minnkar það ekki nema um 6%, niður í 14%. Það er hlutfallsleg áhættuminnkun,“ Segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert