„Við erum ekki búin að gefast upp“

Bergur Þór Ingólfsson.
Bergur Þór Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er allsherjar klúður að sjálfsögðu. Það að enginn vilji í rauninni til að bera ábyrgð á því að hann hafi fengið uppreist æru. Það þykir okkur mjög undarlegt,“ Segir Bergur Þór Ingólfsson, faðir einnar þeirra stúlkna sem Robert Downey braut á og hlaut dóm fyrir árið 2008. Þau hafi aldrei séð Róbert sýna iðrun og vonast Bergur til þess að málið verði tekið fyrir þegar þing kemur aftur saman í haust.

Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðars­son, var árið 2008 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum. Síðan Robert fékk uppreist æru hafa tvær konur til viðbótar stigið fram og greint frá ofbeldi sem þær hafi verið beittar af hálfu Róberts.

Aðspurður kveðst Bergur óttast að fleiri einstaklingar séu þarna úti sem ekki hafi stigið fram.„Já, ég óttast það. Fyrir tveim vikum voru þolendurnir fjórir sem vitað er um, nú eru þeir sex,“ segir Bergur.

Bergur og dóttir hans, Nína Rún Bergsdóttir, vilja gjarnan veita öðrum fórnarlömbum, kunni þau að vera fleiri en vitað er um, aðstoð sína og stuðning. Þetta sagði Bergur í viðtali við Fréttablaðið í dag.

„Ef fólk er óvisst um hvort það eigi að stíga fram og segja sína sögu, þá erum við fús, boðin og búin til þess að tala við fólk og gæta trúnaðar,“ segir Bergur. „Við finnum líka fyrir því að allt samtal og allur stuðningur skiptir rosalega miklu máli í því að standa beinn í baki gagnvart þessu máli,“ segir Bergur í samtali við mbl.is.

Vilja vita hverjir kvittuðu undir

Þá telur Bergur tilefni vera til að fara djúpt í saumana á löggjöf og regluverki sem snýr að uppreist æru og hvernig slíkt ferli fari fram. Aðilar stjórnkerfisins bendi hver á annan og þeir sem skrifað hafi undir vott um góða hegðun kjósi að stíga ekki fram og greina frá röksemdum sínum.

„Það væri bara voðalega fínt að vita hver ber ábyrgð á þessu og fá einhvern til að viðurkenna undirskrift sína í þessu máli öllu. Vanalega þegar fólk skrifar undir eitthvað þá stendur það við það,“ segir Bergur. Það hljóti einnig að eiga við um þá sem voru tilbúnir að skrifa undir gögn sem veiti mönnum uppreist æru.

„Þegar svona margir og þegar svona sterk mótalda gegn þessum gjörningi kemur fram í þjóðfélaginu þykir mér undarlegt að þeir sem kvittuðu undir þetta segi ekki: „nei, þið hafið rangt fyrir ykkur,“ segir Bergur. Eðlilegra væri að taka rökræðuna frekar en að fara leynt með það hvað kom fram í ferlinu.

Þrjú ár þóttu þungur dómur

„Við erum ekki búin að gefast upp á því að við fáum að sjá skjöl um hvernig þetta hefur farið fram. En stjórnsýslan er öll mjög undarleg þar sem fólk virðist ekki bera ábyrgð á undirskriftum sínum eða ákvörðunum,“ segir Bergur.

Þá telur hann að kynferðisbrotamál mættu vera tekin fastari tökum en dómar séu yfirleitt mjög vægir.

„Þrjú ár fyrir þennan mann fyrir að misnota unglingsstúlkur þótti harður dómur á sínum tíma. En að ganga svona rösklega og skipulega fram í glæpum sínum og ofbeldi gagnvart ungum stúlkum og í rauninni eyðileggja líf þeirra. Það kemur náttúrlega í ljós núna að þær eru ekki búnar að  og komast í raun aldrei yfir þetta. Þetta fylgir þeim alla ævi.“

Róbert aldrei sýnt iðrun

„Við höfum aldrei séð iðrun og þess vegna höfum við líka áhuga á því að sjá hvað stendur í ferlinu um uppreist æru og öll málsskjöl varðandi það að hann fái lögmannsréttindin aftur,“ bætir Bergur við. Hann vonar að málinu verði haldið á lofti áfram í sumar og verði ekki runnið úr huga fólks þegar þing kemur aftur saman í haust.  

„Þetta er allt saman voðalega óhreint og ábyrgðin virðist hvergi liggja og einhverjir tveir valinkunnir menn voru spurðir en ekki fórnarlömbin og þetta þarf allt að stokka upp. Ég vona að þetta mál lifi fram á haust til 12. september þegar þingið byrjar aftur og ég vona að þingmenn séu að fylgjast með þessu í sumarfríinu sínu,“ segir Bergur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert