Fleiri fjölkærir en marga grunar

Victor Prada, Al­ej­andro Rodrigu­ez og Manu­el Bermu­dez hafa fengið sam­búð …
Victor Prada, Al­ej­andro Rodrigu­ez og Manu­el Bermu­dez hafa fengið sam­búð sína lög­leidda í Kól­umb­íu. AFP

„Þetta er mjög jákvætt,“ segir Jökull Veigarsson, tvítugur fjölkær (e. polyamorous) maður, um ný kólumbísk lög sem heimila samband þriggja. Um sé að ræða skref fram á við, sem íslenski löggjafinn megi taka til fyrirmyndar.

Mbl.is hefur fjallað um mál Victor Prada, Al­ej­andro Rodrigu­ez og Manu­el Bermu­dez í vikunni, en þeir fengu sambúð sína lögleidda í Kólumbíu á dögunum. Er ekki um að ræða hjóna­band held­ur sér­stakt erfðafjár­sam­band þeirra á milli. Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti við lagaheild Háskóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að það væri ekki á teikniborðinu að lögleiða fjölsambönd hér á landi.

„Ört stækkandi samfélag“

Jökull, sem er sjálfur í opnu sambandi með kærustu sinni, segir mun meira vera um fjölsambönd á Íslandi en margir geri sér grein fyrir. „Þetta er ört stækkandi samfélag en það er ómögulegt að segja til um stærð þess,“ segir Jökull, og bætir við að margir fari leynt með það að vera fjölkærir og aðrir átti sig jafnvel ekki á því sjálfir.

„Það er mikið af fólki sem er að stunda þetta en veit ekki beint af því. Það er kannski með einn langtímamaka og annað fólk kemur og fer, einnig eru margir sem fatta hvaðan erfiðleikar þeirra í einkvænum samböndum stafa þegar fólk kynnist þessu á opinn og jákvæðan hátt,“ segir hann.

Jökull segir að upp hafi komið mál þar sem vandkvæði hafi skapast vegna skorts á lagareglum. „Það er aldrei pláss fyrir fleiri en tvö nöfn; tvo foreldra og tvo í sambúð til dæmis,“ segir hann og bætir við að einnig geti komið upp vandamál þegar kemur að erfðamálum.

Mál kólumbísku mannanna þriggja hófst einmitt í kjölfar þess að annar fyrrum maki þeirra lést og þeir áttuði sig á því lagalega tómarúmi sem var um sambandsform þeirra. Ákváðu þeir að berjast fyrir lögleiðingu sambands síns og því að fá að vera taldir makar hvor annars.

Jökull Veigarsson er tvítugur fjölkær maður.
Jökull Veigarsson er tvítugur fjölkær maður. ljósmynd/Baldvin Ari Jóhannesson

Myndi ekki skaða börn að eiga þrjú foreldri

Jökull segir umræðu um fjölsambönd og það að vera fjölkær vera að komast inn í sviðsljósið. „Það þarf að fræða um þetta, ekki bara gagnvart lagalega sviðinu heldur líka til að útrýma fordómum,“ segir hann. „Sumar fjölskyldur eru kjarnafjölskyldur, en margar falla ekki undir svo einfaldan hatt, af hverju ekki fjölkærar fjölskyldur?“

Bætir hann við að fólk sé sjaldan í nákvæmlega eins sambandi við tvær manneskjur, en geti samt sem áður borið tilfinningar til beggja. Þá geti fleiri en tveir búið saman á heimili og verið í mismunandi sambandi sín á milli en samt sem áður búið í sátt og samlyndi. „Ég held líka að börn myndu aldrei skaðast af því að eiga þrjú foreldri,“ segir hann.

Dregur fram meiri hamingju

„Mannskepnan aðhyllist í eðli sínu ekki endilega einkvæni. Við erum með einhverjum og förum svo yfir í þann næsta,“ segir Jökull. Þá segir hann að þegar hann tali við annað fólk um samband sitt og kærustu sinnar sé eins og það kvikni á ljósaperu hjá fólki. 

„Polyamory er ekki gert til að gera hlutina einfaldari á neinn hátt. Þetta snýst um að deila fleiri stundum og elska meira, vera virkur í að kynnast sjálfum sér og öðrum, að elta þessa forvitni sem býr í brjósti okkar. Án þess myndirðu ekki kynnast öðru fólki jafn vel og upplifa og læra jafn mikið. Þetta er mjög heiðarlegt viðhorf.“ segir hann.

Jökull segir samband sitt og kærustu sinnar vera fyrsta opna samband þeirra beggja, en það hafi dregið þau enn nær hverju öðru. „Ef eitthvað kemur upp ræðum við það og erum fyrir vikið mjög góð að vinna í vandamálum sem koma upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert