Mæta viljandi vanbúin á hálendið

Laugavegsganga byrjar hjá mörgum í Landmannalaugum.
Laugavegsganga byrjar hjá mörgum í Landmannalaugum. mbl.is/Brynjar Gauti

Á næstu dögum og vikum nær umferð um Laugaveg á Fjallabaki hámarki þegar bæði innlendir og erlendir ferðamenn ganga frá Landamannalaugum niður í Þórsmörk eða öfuga leið. Þótt lang flestir göngumenn séu vel útbúnir með réttan búnað, mat og fatnað, þá eru alltaf nokkrir sem mæta vanbúnir og það jafnvel viljandi.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir í samtali við mbl.is að flestir ferðamenn sem leggi af stað á gönguleiðina séu vel tilbúnir og viti hvað þeir séu að gera. „En það er alltaf ákveðið hlutfall sem mætir vanbúið,“ segir hann.

Vanbúin með eins árs barn í grenjandi rigningu

Þannig nefnir Páll að það komi reglulega fyrir að ferðamenn sem hafi upphaflega bara ætlað að ferðast á láglendi og búnir undir slík séu jafnvel komnir á bíl upp í Landmannalaugar og ákveði svo að byrja að labba Laugaveginn, hvort sem það sé hugsað sem dagsferð eða eitthvað meira. Oft séu slíkir ferðamenn ekki tilbúnir undir ferðalög á hálendinu.

Minnist hann sérstaklega atviks í fyrra þar sem par með eins árs barn var mjög illa búið og gekk frá Landmannalaugum yfir í Álftavatn í grenjandi rigningu. Segir hann að þau öll og þá sérstaklega barnið hafi verið orðin köld þegar þangað var komið. Þar voru þau stöðvuð af starfsfólki, skipað í þurr föt og síðar látin taka rútuna til baka að sögn Páls.

Laugavegurinn er vinsælasta gönguleið landsins
Laugavegurinn er vinsælasta gönguleið landsins mbl.is/Rax

Breskir skólahópar sumir viljandi illa búnir

Þá segir Páll að skálaverðir og aðrir á vegum Ferðafélagsins hafi orðið varir við ákveðna hugmyndafræði sem sé í gangi hjá nokkrum hópum breskra skólakrakka sem komi hingað. Þar mæti hóparnir jafnvel illa búnir viljandi, „eins og þetta sé einhverskonar manndómsvígsla,“ segir Páll. „Þau koma þá með lítinn mat og illa búin og eiga að komast í gegnum þetta,“ segir hann og bætir við að hann skilji hreinlega ekki hvað fólk sé að hugsa þar.

Ferðafélagið hefur að sögn Páls gert athugasemdir við þessa ferðatilhögun hópa þegar þau vita af áætlunum þeirra fyrirfram sem og á miðri ferð. Sem dæmi um hvernig sumir hópar hafi verið búnir nefnir Páll að þeir hafi komið með tjöld með engum botni og svo sofið á teppum í stað dýna.

Biður hann ferðaþjónustufyrirtæki sem viti af ferðum slíkra hópa um að fræða þá um aðstæður á hálendinu og að ítreka hætturnar við að vera vanbúnir á slíkum ferðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert