Dýrðin ein í Daladýrð

Að sögn Birnu er dalurinn dýrðin ein og hafi nafn …
Að sögn Birnu er dalurinn dýrðin ein og hafi nafn húsdýragarðsins því legið í augum uppi; Daladýrð. Ljósmynd/Birna Kristín Friðriksdóttir

Húsdýragarðurinn Daladýrð var nýlega opnaður í Brúnagerði í Fnjóskadal. Þar má finna öll helstu íslensku húsdýrin; íslenskar geitur, kindur og hesta, sex tegundir af hænum og hönum, kanínur og svín. Einnig eru til sýnis kettir og hundar heimilisins og áttavillta dúfan Dóra.

Hjónin Birna Kristín Friðriksdóttir og Guðbergur Egill Eyjólfsson reka garðinn ásamt börnum sínum Ingvari, Benedikt og Önnu Kristjönu, sem hjálpa til við að sjá um dýrin og reksturinn. 

Birna segir tíu ára tíkina Buslu, sem hafi eitt sinn …
Birna segir tíu ára tíkina Buslu, sem hafi eitt sinn staðið undir nafni en ekki lengur sökum elli, sérstaklega ánægða með garðinn. „Gamli hundurinn okkar fagnar þessari tilbreytingu mjög vel. Henni er klappað endalaust. Hún getur látið klóra sér allan daginn núna!“ Ljósmynd/Birna Kristín Friðriksdóttir

Áttavillta dúfan Dóra

Dúfan sem er til sýnis kom á pall fjölskyldunnar í byrjun júní, afar horuð og slappleg. Þegar fjölskyldan náði henni komu þau auga á að hún væri merkt. Fjölskyldan hafði upp á eigandanum: „Þá hafði hann farið með hana í bréfdúfukeppni í Þjórsárdal og hún fór bara alveg kolvitlausa leið,“ segir Birna og bætir við, „og heitir því Dóra landkönnuður.“ Eigandi dúfunnar gaf fjölskyldunni dúfuna enda nýttist hún alls ekki í bréfdúfukeppnum.

Ferhyrndur hrútur er einnig til sýnis og á næstu dögum munu hjónin taka á móti yrðlingum, sem þau fá gefins frá refaskyttum á svæðinu.

Dúfan Dóra var að keppa í bréfdúfukeppni í Þjórsárdal þegar …
Dúfan Dóra var að keppa í bréfdúfukeppni í Þjórsárdal þegar hún villtist af leið sinni. Eigandi dúfunnar gaf fjölskyldunni hana svo enda nýttist hún alls ekki í slíkum keppnum. Ljósmynd/Birna Kristín Friðriksdóttir

Busla fagnar breytingum

Birna segir tíu ára tíkina Buslu, sem hafi eitt sinn staðið undir nafni en ekki lengur sökum elli, sérstaklega ánægða með garðinn. „Gamli hundurinn okkar fagnar þessari tilbreytingu mjög vel. Henni er klappað endalaust. Hún getur látið klóra sér allan daginn núna!“

Fjölskyldan er með fjórtán grísi sem Birna segir vekja athygli, enda afar snoppufríðir. Á bænum eru líka kínverskar silkihænur sem séu „alveg sjúklega sætar“ en þó sérstaklega hænan Dúna sem sé eins og „hvítur hnoðri“.

Á bænum eru kínverskar silkihænur sem eru „alveg sjúklega sætar“ …
Á bænum eru kínverskar silkihænur sem eru „alveg sjúklega sætar“ en þó sérstaklega hænan Dúna sem sé eins og „hvítur hnoðri“. Ljósmynd/Birna Kristín Friðriksdóttir

Þúsundasti gesturinn

Fjölskyldan flutti á Brúnagerði fyrir tveimur árum en á jörðinni var 100 metra tómt minkahús sem stóð autt og var í raun ónýtt. „Við sáum tækifæri í þessu,“ segir Birna en á svæðinu í kring, milli Vaglaskógar og Illugastaða, er mikið flæði fólks. Hjónin ákváðu því að grípa gæsina á meðan hún gafst og opna húsdýragarð.

Garðurinn hefur notið mikilla vinsælda síðan hann opnaði 23. júní en í gær kom þúsundasti gestur hans í heimsókn. „Þetta eru ótrúlega góðar viðtökur sem við höfum fengið,“ segir Birna. „Það eru allir mjög ánægðir og finnst þetta gott framtak því að það er ekki mikið fyrir krakka hérna í kringum Akureyri.“

Fjölskyldan er með fjórtán grísi sem Birna segir vekja athygli, …
Fjölskyldan er með fjórtán grísi sem Birna segir vekja athygli, enda afar snoppufríðir. Ljósmynd/Birna Kristín Friðriksdóttir

Hoppa í heyið eins og í gamla daga

Á næstu árum mun fjölskyldan stefna að því að nýta húsið til fulls og leggja þar megináherslu á að stækka leiksvæðið með alls kyns afþreyingu. Þar á meðal munu þau bjóða upp á „rými til að hoppa í heyið eins og gert var í gamla daga“. Þau fá sér þó líklega ekki fleiri dýr að sögn Birnu.

Þau ætla einnig að selja eigin afurðir, svína-, lamba- og nautakjöt og stefna á að gera garðinn að heilsársáningarstað. Birna segist ætla að opna verslun með framleiðslu sinni, Gjósku, í garðinum en þau reka verslun með hönnun hennar í búðinni Gjósku á Skólavörðustíg 20. Hún segir að þannig geti fleiri Íslendingar notið góðs af.

Hjónin Birna Kristín Friðriksdóttir og Guðbergur Egill Eyjólfsson reka garðinn …
Hjónin Birna Kristín Friðriksdóttir og Guðbergur Egill Eyjólfsson reka garðinn ásamt börnum sínum Ingvari, Benedikt og Önnu Kristjönu, sem hjálpa til að sjá um dýrin og reksturinn. Ljósmynd/Íris Stefánsdóttir

Ekkert nema dýrðin ein

Í Daladýrð eru trampólín, leiksvæði og lítil veitingaaðstaða í afgreiðslunni. Opið er virka daga klukkan 13:00-17:00 og um helgar 12:00-18:00. Aðgangseyrir að garðinum er 1.200 krónur en fyrir börn 12 ára og yngri kostar 800 krónur inn.

Aðspurð segir Birna nafnið Daladýrð liggja í augum uppi. „Ef þú kæmir í dalinn þá myndirðu strax sjá það,“ segir hún. „Það er bara endalaus dýrð, það er skógur milli fjalls og fjöru og fuglasöngur allt um kring. Dýrðin ein.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert