Kona í spreng hljóp Hólmgeir næstum niður

„Það eru engin klósett í boði eða neitt hjá Strætó!“ …
„Það eru engin klósett í boði eða neitt hjá Strætó!“ segir Hólmgeir. „Öll þurfum við nú að gera þarfir okkar,“ segir hann. mbl.is/Styrmir Kári

Hólmgeir Einarsson, sem rekur fiskbúð í verslunarmiðstöðinni Mjódd, segir að aðstöðuleysi Strætó sé óboðlegt. Hann þurfti að opna búð sína í morgun fyrir ferðamanni sem þurfti nauðsynlega að komast á klósettið. Hann segir atvikið alls ekki vera einsdæmi.

Hólmgeir segir í samtali við blaðamann mbl.is að aðstöðuleysið sé mikið vandamál. „Það eru engin klósett í boði eða neitt hjá Strætó,“ segir Hólmgeir. „Öll þurfum við nú að gera þarfir okkar.“

Hann segir að klósett séu í verslunarmiðstöðinni en Strætó eigi ekki að treysta á hana til að þjónusta viðskiptavini fyrirtækisins. „Auðvitað á verslunarmiðstöðin ekkert að þjóna þessu.“

Hljóp hann næstum niður

Hólmgeir kvartaði undan aðstöðuleysi Strætó í Facebook-færslu sem hann deildi í hópnum „Íbúasamtökin Betra Breiðholt“. Þar greinir hann frá því að hann hafi verið að vinna í búðinni snemma í morgun fyrir opnun verslunarmiðstöðvarinnar. Þá hafi erlendur ferðamaður, eldri kona, lamið á dyr búðarinnar.

 „Ég vissi ekki hvað gekk á, aumingja konugreyið var svoleiðis í spreng að hún hljóp mig næstum því niður þegar ég opnaði fyrir henni,“ segir Hólmgeir, „hún var með einhverja tösku og pinkla og hún grýtti þessu öllu á gólfið þegar hún var að hlaupa inn!“  

Hann segir atvikið alls ekki vera einsdæmi. „Ég er oft að fá fólk. Það er nú ekki sniðugt að bjóða öllum inn í fiskbúðarklósett!“ segir hann og bætir við: „En í verstu tilfellum þá leyfum við það hjá okkur.“

Framtaksleysi hjá borginni

Hólmgeir segir aðstöðuleysið vera mikið í umræðu á Facebook-hópnum, þar sem það sæti mikilli gagnrýni. Búðaeigendur í Mjódd séu allir sammála um að fyrirkomulagið gangi ekki.

„Það eru allir á sama máli þarna, að þetta sé alveg óboðlegt. Algjörlega óboðlegt eins og þetta er,“ segir Hólmgeir.

Hann segir það fáránlegt að hvergi sé hægt að komast á klósett og það sé ákveðið framtaksleysi hjá borginni. „Málin á höfuðborgarsvæðinu eru greinilega ekki í góðu lagi, hvorki frárennsli né aðrennsli,“ segir Hólmgeir og hlær.

Hólmgeir Einarsson fisksali í miðri skötuvertíð. Mynd úr safni.
Hólmgeir Einarsson fisksali í miðri skötuvertíð. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert