Nýbreytni í merkingum á Laugavegi

Nýtt skilti við vað á læk við Hattafell milli Emstra …
Nýtt skilti við vað á læk við Hattafell milli Emstra og Hvanngils. Mynd/Ferðafélag Íslands

Með uppsetningu nýrra vegvísa við Laugaveginn á Fjallabaki hefur Ferðafélag Íslands bryddað upp á þeirri nýbreytni að skera stafi og aðrar upplýsingar í gegnum málmplötu í stað þess að skrifa stafina á plötur. Með þessu er gert ráð fyrir að upplýsingar á skiltunum verði bæði sýnilegri og standist bæði veður og vind til lengri tíma.

Undanfarna daga hefur fólk frá Ferðafélaginu unnið að því að setja nýja vegvísa upp og eru þegar komin upp 10 ný skilti sem vísa göngufólki leið að næstu skálum.

Vildu bæta endingu skiltanna

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins, segir í samtali við mbl.is að út frá fenginni reynslu hafi 23 staðir verið valdir og að nú sé verkið um hálfnað. Áfram verður haldið með verkefnið á næstu misserum.

Fyrstu staurarnir voru settir upp í fyrra og segir Páll að þeir hafi komið mjög vel undan vetri og því hafi verið ákveðið að drífa í að setja upp fleiri staura núna í sumar. Um er að ræða skornar málmplötur sem eru settar á veglega tréstaura. „Við vildum að þetta myndi endast sem lengst,“ segir Páll, en þekkt er að skilti sem þessi veðrist fljótt í þeirri veðráttu sem hálendið hefur upp á að bjóða. Þannig hverfa merkingar eða verða óskýrar á nokkrum árum.

Skálasvæði FÍ í Botnum í Emstrum.
Skálasvæði FÍ í Botnum í Emstrum. Mynd/Ferðafélag Íslands

Páll tekur fram að auðvitað muni áfram þurfa að sinna viðhaldi þessara nýju merkinga, en að áætlað sé að það verði mun minna en á eldri skiltum.

„Háannatímabilið er að bresta á“

Umferð á Laugaveginum hófst seinni hluta síðasta mánaðar og hefur undanfarna daga farið stigvaxandi. „Háannatímabilið er að bresta á,“ segir Páll.

Skálaverðir eru komnir í alla skála og segir Páll aðstæður almennt mjög góðar á gönguleiðinni. Þó að sé enn sjór í Hrafntinnuskeri og um 3 kílómetra radíus út frá skálanum. Segir Páll að þrátt fyrir það sé ekki um að ræða krapa eða vatnsbleytu og snjó sé farið að taka upp í Jökulgiljunum. „Svo fer þetta að gerast hratt á næstu dögum,“ segir hann um að snjórinn sé á förum.

Auk vegvísanna er Ferðafélagið með stór teiknuð kort af svæðinu …
Auk vegvísanna er Ferðafélagið með stór teiknuð kort af svæðinu umhverfis Laugaveginn við alla skála sína á gönguleiðinni. Mynd/Ferðafélag Íslands

Hingað til hafa einhverjir ferðalangar ákveðið að gista í tjöldum fyrir utan skálann í Hrafntinnuskeri, en Páll segir að þeir sem ekki eigi bókað í skála haldi margir hverjir áfram niður í Álftavatn þar sem ekki sé snjór. 

Minna vatnsmagn í ám í ár

Spurður um vatnsmagn í ám í ár segir Páll að það hafi verið töluvert minna nú í upphafi sumars en var á tímabili síðasta sumar. Var þá mikið jökulvatn til dæmis í Bláfjallakvísl en ástæðan var breyttur farvegur vatnsins þar sem vatn sem vanalega rann í Innri-Emstruá kom niður í Bláfjallakvísl. Óð göngufólk þá oft upp í mitti til að komast yfir ána.

Páll tekur þó fram að vatnsmagn í ám geti reyndar aukist mjög fljótt í góðri rigningu og því þurfi alltaf að hafa varann á sér.

Kaldaklofskvísl að Fjallabaki.
Kaldaklofskvísl að Fjallabaki. Mynd/Ferðafélag Íslands

Vegvísarnir voru hannaðir af Árna Tryggvasyni og hafa sjálfboðaliðar unnið að uppsetningu þeirra.

Fyrir áhugasama er hægt að kynna sér betur staðsetningu og hönnun vegvísanna á meðfylgjandi korti, en þar eru einnig upplýsingar um ýmsar vegalendir á gönguleiðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert