„Það er ekki við neinn að sakast“

Frá hjólreiðakeppninni fyrir tveimur árum.
Frá hjólreiðakeppninni fyrir tveimur árum.

„Þarna koma upp aðstæður sem okkur þykja hörmulegar en óraði ekki fyrir,“ segir Einar Bárðarson, eigandi hjólreiðakeppninnar Kia-Gullhringsins, um slys sem varð í keppninni á laugardag þegar fimm hjólreiðamenn féllu í jörðina, eftir að einn þeirra hjólaði ofan í rauf á pípuhliði og festi annað dekk hjólsins. Betur fór en á horfðist og sá sem slasaðist mest við fallið er nú á batavegi.

Einar segir aðstandendur keppninnar nú ætla að fara yfir hvað megi gera betur og hvort koma megi í veg fyrir að svona slys endurtaki sig. Vel hafi þó verið farið yfir brautina fyrir keppni, líkt og fyrri ár. Hann segir varla hægt að tala um gáleysi af hálfu skipuleggjenda í tengslum við slysið, þrátt fyrir að þeim hafi yfirsést þessi rauf á hliðinu.

„Við skoðuðum alla brautina og höfum gert öll þessi ár. Það er farið yfir það í skráningargögnunum okkar að við erum að keppa úti á vegum sem eru ekki hannaðir fyrir hjólreiðakeppnir. Keppendur vita að það getur allt komið fyrir og vita að þeir eru fara út í þær aðstæður. Þeir vita það líka að við erum eins vel undirbúin að takast á við slys og við mögulega getum.“

Margt fleira sem þarf að varast

Einar segir ýmislegt sem keppendur verða að varast á þessari leið og að margt óvænt geti komið upp vegna aðstæðna. Hann bendir á að langflestir kynni sér brautina fyrir keppni, annaðhvort með því að hjóla hana eða keyra.

Einar segir tæplega hægt að tala um gáleysi skipuleggjenda.
Einar segir tæplega hægt að tala um gáleysi skipuleggjenda. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

„Við skoðuðum þetta allt saman, en okkur yfirsást þetta. Þessi rörahlið eru víða og þarna á Biskupstungnabraut eru víða holur, sem eru auðvitað líka í öðrum keppnum. Það er líka laust sauðfé í kringum keppnisbrautina, það eru sviptivindar og það eru bílar í kringum keppendur. Menn verða því að fara í þessar keppnir með það hugarfar að við erum ekki á lokaðri keppnisbraut. Við bendum fólki á það þegar það skráir sig inn og biðjum fólk að taka það til umhugsunar.“

Einar segir aðstandendur keppninnar hafa verið í góðu samstarfi við Vegagerðina og hún sé haldin á laugardagskvöldi, þegar minnst umferð er um þetta svæði. „Nú eru einhverjir að vísa til þess að um gáleysi skipuleggjenda hafi verið að ræða, en við vorum það vel undirbúin að á innan við tíu mínútum voru komnir tveir sjúkrabílar, tveir lögreglubílar, læknir og björgunarsveitir. Það getur allt komið fyrir og þannig höfum við undirbúið okkur síðustu fimm ár, en aldrei þurft að kalla þetta fólk til áður.“

Þarf að endurskoða vegakerfið í heild

Þorvaldur Daníelsson, stofnandi Hjólakrafts, tekur undir orð Einars, segir vel hafa verið staðið að keppninni og að ekki sé hægt kenna neinum um slysið. Það hafi einfaldlega orðið óhapp.

„Í þessi tilfelli þarna á laugardaginn þá held ég að enginn hafi áttað sig á því að raufin á hliðinu er akkúrat dekksbreiddin. Þetta eru einhverjir 25 til 30 millimetrar og hann fer þráðbeint ofan í. Það er ekki einu sinni hægt að saka Vegagerðina um einhverja handvömm. Það er ekki við neinn að sakast að þetta gerist. Í mínum huga er enginn að leita að sökudólgum.“

Þorvaldur telur að tími sé kominn á að endurskoða vegakerfið …
Þorvaldur telur að tími sé kominn á að endurskoða vegakerfið í heild sinni. Sigurður Bogi Sævarsson

Hann bendir á að hliðið hafi verið þarna í 40 ár eða lengur og að þúsundir hjólreiðamanna hafi margoft hjólað yfir það, án þess að slys hafi orðið. Það að skoða vegakerfið í heild, með tilliti til hjólreiðamanna, sé hins vegar eitthvað sem þurfi að gera.

„Í hjólreiðakeppnum er miðlínuregla, þar sem segir að ekki megi fara yfir miðlínu vegar, af því að það er ekki lokað fyrir umferð. En samskeytin á þessu sauðfjárveikivarnarhliði eru um 30 sentimetra inn á þessari akrein. Þetta er auðvitað allt hannað og smíðað með bílinn í huga. Það er því spurning hvort það þurfi ekki einfaldlega að skoða vegakerfið í heild.“

Hans mat er að skipuleggjendur keppninnar hafi í raun ekkert geta gert til að koma í veg fyrir slysið. „Það var eins vel staðið að málum og hægt er, enda sést það á viðbragðstíma neyðaraðila. Miðað við svæðið sem þeir eru að þjónusta er eiginlega galið hvað viðbragðstíminn var flottur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert