Aukið álag á starfsfólk Landspítalans vegna ferðamanna

Erlendir ferðamenn taka til sín meiri og flóknari þjónustu en …
Erlendir ferðamenn taka til sín meiri og flóknari þjónustu en íslenskir sjúklingar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Koma erlendra ferðamanna á Landspítalann jókst um 193% á milli ára frá 2013 til 2016. Erlendir ferðamenn taka til sín meiri þjónustu en íslenskir sjúklingar. Reiknað er með að um 30-35 milljónir króna innheimtist ekki ár hvert vegna komu erlendra ferðamanna á Landspítalann.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala var fjöldi koma erlendra ferðamanna á spítalann árið 2013 1.594, en árið 2106 voru heimsóknirnar 4.665. Innheimtar greiðslur vegna ósjúkratryggðra sjúklinga hafa einnig hækkað töluvert. Árið 2013 voru tæpar 271 milljón króna innheimtar en árið 2016 var sú tala rúmar 604 milljónir, á meðan um 30-35 milljónir innheimtast ekki.

Myndin sýnir hlutfall komu og legu erlendra ferðamanna á Landspítalanum …
Myndin sýnir hlutfall komu og legu erlendra ferðamanna á Landspítalanum af heildarkomum og legum frá 2007-2016. Mynd/Landspítalinn

Taka til sín meiri þjónustu

Sjúklingar sem eru erlendir ferðamenn þurfa meiri og flóknari þjónustu en íslenskir sjúklingar. Oft þurfa þeir aðstoð við að fylla út gögn vegna sjúkratrygginga sem heftar afgreiðsluflæði. Þá hefur koma erlendra ferðamanna á Landspítalann í för með sér samskipti við erlend tryggingafélög sem hringja á deildir spítalans og óska eftir upplýsingum og gögnum.

Aðstandendur sjúklinga, sérstaklega þeirra sem slasast mikið, eru oft án stuðnings og þarfnast því frekari þjónustu. Einnig þarf að afla heilbrigðisupplýsinga frá heimalandi sjúklings, sem krefst oft margra símhringinga og bréfsamskipta.

Ef kemur til flutnings sjúklings með sjúkraflugi til heimalands þarfnast slíkt mikillar umsýslu, til dæmis bókunar flugs eða jafnvel fylgdar frá Landspítalanum. Aukin vinna felst í þýðingu og vinnslu gagna sem send eru með sjúklingi við útskrift. Þá þarf að skipuleggja túlkaþjónustu séu tungumálaörðugleikar fyrir hendi. Einnig felst talsverð vinna og kostnaður í reikningagerð fyrir þá sjúklinga sem staðgreiða ekki við komu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert