Sárasótt sækir í sig veðrið

Sárasótt er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu er nefnist Treponema …
Sárasótt er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu er nefnist Treponema pallidum. Fyrstu einkenni sárasóttar eru sár á þeim stað sem bakterían komst í snertingu við, oftast á kynfærum. Sárasótt er greind með blóðprufu sem er hægt að láta taka hjá öllum læknum. mbl.is/ÞÖK

Sárasótt sótti í sig veðrið fyrstu fimm mánuði ársins, að því er fram kemur í Farsóttafréttum Landlæknis. Eru tilfellin talsvert fleiri en sést hefur síðastliðin ár. Á þessu ári hafa sextán karlmenn og sjö konur greinst með sárasótt. Árið 2014 voru tilfellin sex á sama tímabili og í fyrra voru þau þrettán.

 Fyrstu sex mánuði ársins hafði talsverður fjöldi fólks greinst með lekanda en tilfellunum hefur þó fækkað frá fyrra ári. Karlar eru enn í meirihluta þeirra sem hafa greinst á þessu ári eða 20 en 13 konur hafa greinst á sama tíma.

Ónæmi lekanda fyrir sýklalyfjum er vaxandi vandamál víða um heim, segir í Farsóttafréttum. Fjölónæmir stofnar lekandabaktería hafa enn sem komið er ekki greinst hér á landi.

Færri greinst með HIV

Fjöldi klamydíusýkinga var enn mikill fyrstu sex mánuði ársins líkt og árin á undan. Af þeim sem hafa greinst á þessu ári eru 303 karlar og 433 konur.

Þeir sem greinst hafa með HIV-sýkingu fyrstu sex mánuði ársins eru færri en í fyrra og nær því sem greindist árin þar á undan. Af þeim átta sem greinst hafa á þessu áru eru þrír samkynhneigðir, þrír fíkniefnaneytendur og tveir gagnkynhneigðir. Þrír eru af erlendu bergi brotnir og tveir af þeim voru með þekkta HIV-sýkingu fyrir komu til landsins. Sjö hinna sýktu eru karlmenn, segir í Farsóttafréttum.

Í mars skipað heilbrigðisráðherra starfshóp til að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma og HIV/alnæmis hér á landi. Starfshópurinn hefur haft samráð við fulltrúa HIV-Íslands, forsvarsmenn Samtakanna 78 ásamt ýmsum öðrum sem sinna forvarnarstarfi á Íslandi.

Miðað er við að í haust skili hópurinn tillögum til ráðherra um aðgerðir til að sporna við útbreiðslu kynsjúkdóma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert