Var leyfilegt að synja blaðamanni um upplýsingar

Matvælastofnun var í rétti.
Matvælastofnun var í rétti. mbl.is/Sigurður Bogi

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti synjun Matvælastofnunar á að veita blaðamanni upplýsingar um aðbúnað dýra á tilteknu lögbýli. Var metið að persónuverndarsjónarmið vægju þyngra en almannahagsmunir. Þetta kemur fram á heimasíðu Matvælastofnunar

Í tilkynningunni segir að í kjölfar fyrirspurnar frá blaðamanni hafi Matvælastofnun borið fyrir sig ákvæði í lögunum sem bannar stjórnvöldum að veita upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. Blaðamaðurinn hafi verið ósáttur við þessa synjun og kært hana til nefndarinnar. 

Ábúandinn á bænum var sjálfur skráður fyrir dýrunum og eignir, fé, innlegg og annað skráð á kennitölu hans. Hann var umráðamaður dýranna og persónulega ábyrgur fyrir aðbúnaði þeirra. 

Þá segir að nefndin hafi þurft að vega saman hagsmuni bóndans af því að upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni hans færu leynt á móti þeim almennu hagsmunum sem fælust í því að fjölmiðlar fengju aðgang að gögnum um aðbúnað dýra.

Hagsmunir bóndans vógu þyngra eins og hér háttaði til að mati úrskurðarnefndarinnar og var ákvörðun Matvælastofnunar því staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert