„Allur auka peningur fer í gleraugu“

Sara Rós og Garðar Þór þurftu bæði mjög sterk gleraugu …
Sara Rós og Garðar Þór þurftu bæði mjög sterk gleraugu strax við eins árs aldur. Þessi mynd var tekin af þeim fyrir nokkrum árum. Mynd/Kolbrún Sara

Foreldrar barna sem nota gleraugu geta komið saman, skipst á reynslusögum og fengið ráð á Facebook-síðunni Spjall fyrir foreldra gleraugnabarna. Í hópnum eru rúmlega 400 manns. Einnig hefur verið útbúinn undirskriftalisti þar sem skorað er á stjórnvöld að hækka niðurgreiðslur vegna gleraugnakaupa barna og unglinga.

Stofnandi síðunnar, Kolbrún Sara Ósk Kristinsdóttir, á sex börn og fjögur þeirra nota gleraugu. Hún segir kostnað vegna gleraugnakaupa koma illa við stóra fjölskyldu og reynir að endurnýja gleraugun þegar hún fær greiddar barnabætur. „Allur auka peningur fer í gleraugu en ég læt þetta alltaf ganga fyrir.“ Hún stofnaði síðuna því henni fannst vanta umræðuvettvang fyrir foreldra í svipuðum sporum.

Kostnaður vegna gleraugnakaupa kemur illa við marga, enda eru niðurgreiðslur vegna kaupanna mjög takmarkaðar. Sem dæmi má nefna að fyrir 5 ára barn sem notar gleraugu í styrk 8,25 - 10,0 fæst niðurgreiðsla upp á 6.300 krónur árlega á hvort gler. Gleraugun geta hins vegar kostað hátt 100 þúsund krónur.

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að Guðrún Árný Karlsdóttir hefði greitt vel á aðra milljón króna fyrir gleraugu handa mjög sjónskertum 9 ára syni sínum, á síðustu árum. Það er augljóslega ekki eindæmi.

Kolbrún reynir að endurnýja gleraugu barna sinna þegar hún fær …
Kolbrún reynir að endurnýja gleraugu barna sinna þegar hún fær greiddar vaxtabætur. Mynd/Kolbrún Sara

Tvö barna Kolbrúnar þurftu að fá mjög sterk gleraugu strax við eins árs aldur. Annað er með styrkleika +7 og hitt +5,5. Hún telur sig eflaust hafa borgað vel á aðra milljón fyrir gleraugu sinna barna á síðustu árum.

„Fyrstu gleraugu sonar míns, sem hann fékk þegar hann var 1 árs, kostuðu 42 þúsund krónur. Svo datt hann á andlitið í sömu viku og ég borgaði 12 þúsund fyrir eitt nýtt gler. Hann er 7 ára í dag og ég myndi ekki senda hann frá mér án gleraugna. Ef hann er ekki með gleraugu þarf að leiða hann,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is. Börnin hennar eiga öll auka gleraugu til að nota ef hin skyldu verða fyrir hnjaski.

Kolbrún á svo tíu mánaða son sem á pantaðan tíma í sjónmælingu hjá augnlækni í ágúst. Hún vonar hins vegar að hann verði eins og næstelsti sonurinn, sem er með fullkomna sjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert