Greitt yfir milljón fyrir gleraugu 9 ára sonar

Guðrún Árný ásamt sonum sínum. Nói er fremst á myndinni.
Guðrún Árný ásamt sonum sínum. Nói er fremst á myndinni. Mynd/Guðrún Árný

Á átta árum hefur Guðrún Árný Karlsdóttir greitt vel á aðra milljón króna fyrir gleraugu og tengdan búnað handa níu ára syni sínum, Nóa. Hann er mjög sjónskertur og gleraugun eru honum nauðsynleg hjálpartæki svo hann geti farið fram úr rúminu, gengið um heima hjá sér, leikið við vini sína, mætt í skólann og stundað íþróttir. Þau eru honum nauðsynleg við allar daglegar athafnir.

„Hann getur ekkert án þeirra. Ef hann er einhvers staðar úti eða í skólanum og það kemur eitthvað fyrir gleraugun, og hann er ekki með aukagleraugu með sér, þá þarf að hringja í mig og ég sæki hann. Þá þurfum við að fara strax gleraugnaleiðangur og láta græja ný. Þetta getur ekki beðið neitt,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is. Þegar Nói fær ný gleraugu þarf einnig að láta laga gömlu gleraugun, með tilheyrandi kostnaði, svo þau geti verið aukagleraugu. „Ég er alltaf með varagleraugu eða í bílnum, þau þurfa alltaf að vera til taks.“

11 ný gleraugu á 8 árum 

Nói þarf gleraugu með styrk upp á +8,50 á hægra auga og +9,00 á vinstra auga og eru þau sérstaklega sniðin að hans augum. Glerin þarf alltaf að sérpanta og þynna mikið. Gleraugu fyrir Nóa kosta yfirleitt um 85 þúsund krónur, en ef umgjörð er heil og aðeins þarf að kaupa gler er kostnaðurinn um 55 þúsund krónur fyrir settið. Hann fékk sín fyrstu gleraugu 13 mánaða gamall og eins og flest önnur börn hefur hann gaman af því að ærslast og leika sér en fyrir vikið verða gleraugun oft fyrir hnjaski. Það eykur kostnaðinn vegna gleraugnakaupa enn frekar.

Gleraugun hans Nóa. Hann þarf alltaf að hafa varagleraugu til …
Gleraugun hans Nóa. Hann þarf alltaf að hafa varagleraugu til taks ef eitthvað kemur upp á. Þá á hann sérstök íþróttagleraugu og sundgleraugu með styrk. Mynd/Guðrún Árný

Guðrúnu reiknast til að hún hafi keypt 11 ný gleraugu fyrir son sinn á 8 árum, fyrir utan íþróttagleraugu og sundgleraugu með styrk. Þá telur hún ekki með umgjarðir sem hún hefur þurft að kaupa vegna hnjasks eða stök gler. „Það er nefnilega alls konar annar kostnaður sem kemur þarna inn. Ég ætlaði varla að trúa þessu þegar ég settist niður og reiknaði. Þetta eru svona 100 til 140 þúsund krónur ári sem ég eyði í gleraugu handa honum.“

Fyrstu þrjú árin voru glerin niðurgreidd um 12.600 krónur, tvisvar á ári. 6.300 krónur á hvort gler. Þegar Nói var á aldrinum 4 til 8 ára voru glerin niðurgreidd einu sinni á ári, en eftir að hann varð 9 ára eru glerin aðeins niðurgreidd annað hvert ár.

Nói varð miður sín þegar umgjörðin brotnaði

Guðrún vakti athygli á þessum gríðarlega kostnaði á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi, en hún skilur ekki af hverju nauðsynleg hjálpartæki, líkt og gleraugu fyrir mikið sjónskert börn, eru ekki meira niðurgreidd.

„Það er svo margt niðurgreitt þegar kemur að börnum. Maður fer til sérfræðings og þarf ekki að greiða neitt. En mér finnst þetta eiginlega mikilvægara en margt annað sem ég fæ niðurgreitt fyrir hann. Hann er svo mikið sjónskertur. Ég á annan dreng sem notar frekar venjuleg gleraugu, sem kosta kannski um 20 þúsund krónur. Ég græt ekki yfir því annað slagið. Ef það kemur eitthvað fyrir gleraugun hans og hann þarf að vera án þeirra í nokkra daga fær hann kannski smáhöfuðverk en hann getur fúnkerað.“

Nóa finnst gleraugun sín mjög dýrmæt, enda hjálpa þau honum …
Nóa finnst gleraugun sín mjög dýrmæt, enda hjálpa þau honum að lifa eðlilegu lífi. Mynd/Guðrún Árný

Sjón Nóa kemur ekki til með að lagast svo Guðrún má búast við að þurfa að reiða fram álíka upphæðir fyrir gleraugu næstu 9 árin eða svo. Þó vissulega hann læri sjálfur með aldrinum að passa betur upp á gleraugun þótt það geti verið erfitt í leik og íþróttum. „Hann kann betur að fara með gleraugun sín í dag, en til dæmis um daginn hljóp hann á og glerugun brotnuðu, ný gleraugu sem hann var búinn að vera með í þrjá daga á nefinu. Þá þurfti ég að greiða 15.000 krónur fyrir nýja umgjörð. Hann var sjálfur alveg miður sín. Honum finnst gleraugun sín svo dýrmæt. Hann var stoltur af þessum gleraugum og fannst þau flott. Hann sá rosalega vel með þeim. Með tímanum rispast nefnilega glerin og hægt og rólega fer hann að sjá verr, án þess að átta sig á því. Þegar hann fær svo ný gleraugu sér hann svo rosalega skýrt.“

Vill sjá tekjutengda niðurgreiðslu

Guðrúnu hefur verið bent á að hægt sé að fá ódýrari gleraugu í Costco. Hún er mjög þakklát fyrir það og mun eflaust nýta sér þjónustuna þar. „Nú er krónan samt mjög hagstæð fyrir okkur, svo mun hún örugglega veikjast aftur. En ég er alveg viss um að niðurgreiðslan verður sú sama fyrir mig, rúmlega 12 þúsund krónur annað hvert ár.“

Guðrún veit líka af þeim möguleika að panta gleraugu í gegnum erlendar vefsíður, en henni finnst það eiginlega ekki hægt þegar gleraugun eru handa barni. „Mér finnst mjög erfitt að hafa ekki nein persónuleg tengsl við söluaðilann þegar ég er með barn. Hann er kannski fyrst núna að segja til ef honum finnst gleraugun óþægileg. Það var þannig að hann fékk bara gleraugu og átti að vera með þau. Það spurði enginn hvað honum fannst. Þess vegna er svo gott að hafa aðila til taks sem geta hjálpað manni að vera viss um að gleraugun henti honum 100 prósent.“

Guðrún segir sorglegt að hugsa þess að fólk sem hafi lítið á milli handanna hafi kannski ekki efni á því að kaupa gleraugu handa börnunum sínum. „Ég þakka fyrir að vera í þeirri stöðu sem ég er í. Við erum tvö og þetta er aldrei spurning. Ég bara borga það sem þarf að borga. Þetta eru augu sonar míns. Hann á engin önnur. Þetta verður að vera algjörlega í lagi.“

Hún vill sjá að tekið sé mið af hverju tilfelli fyrir sig þegar kemur að niðurgreiðslu. Að niðurgreiðslan verði tekjutengd og þeir sem hafi minna á milli handanna fái meira niðurgreitt.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert