Kindur sitja fastar í klettabelti

Ær og lamb hennar sitja föst í klettabelti hjá Reynivöllum. …
Ær og lamb hennar sitja föst í klettabelti hjá Reynivöllum. „Þær bíða rólegar eftir björgun,“ segir Skúli og bætir við: „Þær horfa vonaraugum á drónann í hvert sinn sem hann fer þarna upp eftir!“ Ljósmynd/Skúli Gunnar Sigfússon

Ær og lamb hennar sitja föst í klettabelti hjá Reynivöllum. Skúli Gunnar Sigfússon, bóndi á Reynivöllum og athafnamaður, vakti athygli á kindunum tveimur á Facebook-síðu sinni og hvatti þar sigfólk og flugbjörgunarsveit svæðisins til að taka ágætisæfingu og bjarga þeim. Skúli notar dróna til að fylgjast með kindunum og lætur fylgja með myndband í færslunni. Enginn hefur enn svarað kalli Skúla.

Í samtali við blaðamann mbl.is segir Skúli að engin leið sé greið fyrir nýbökuðu móðurina og lambið hennar. „Hún fer niður snarbratt með lambið sitt og lendir í sjálfheldu,“ segir hann. Hann segir jafnframt að í fjöllunum í Suðursveit sé algengt að kindur festist en það sé óvenjulegt að ná atburðinum á mynd.

Munu ekki losna sjálfar

Heimafólk tók eftir kindunum föstum í klettabeltinu fyrir um fjórum dögum. Síðan þá hefur Skúli reglulega fylgst með þeim með dróna til að sjá hvort þær losni. „Þær gera það ekki, og svo segja mér bændur að þær muni ekkert losna sjálfar, þær geta ekki komist í burtu,“ segir Skúli.

Eins og er hefur enginn svarað kalli Skúla. Hann segir að þar sem kindurnar húki sé grasblettur og því hafi þær æti í einhvern tíma. Auk þess séu kindur afar harðgerð dýr. „Þær geta verið þarna í nokkrar vikur,“ segir Skúli.

Kindurnar hafa verið í sjálfheldu í fjóra daga og engin …
Kindurnar hafa verið í sjálfheldu í fjóra daga og engin leið er þeim greið. Því hvetur Skúli flugbjörgunarsveit til að taka gefandi og skemmtilega æfingu og bjarga dýrunum. Ljósmynd/Skúli Gunnar Sigfússon

Horfa vonaraugum á drónann

Skúli segir að án aðstoðar muni þær svelta og því hafi hann vonast eftir að björgunarsveitarmenn tækju áskorun hans. Þeirra biði krefjandi og gefandi verkefni. „Ég var að vona að það myndu einhverjir flugbjörgunarsveitarmenn vilja lenda í skemmtilegri æfingu!“ segir hann.

Síðast kíkti Skúli á kindurnar í gærkvöldi en þá virtust þær rólegar. „Þær bíða rólegar eftir björgun,“ segir Skúli og bætir við: „þær horfa vonaraugum á drónann í hvert sinn sem hann fer þarna upp eftir!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert