EM-torgið opnað þegar Ísland spilar fyrsta leik

Gunnar Lár vonast til þess að sem flestir heimsæki torgið.
Gunnar Lár vonast til þess að sem flestir heimsæki torgið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

 „Við byrjum núna seint á föstudaginn við uppsetningu torgsins og vinnum yfir alla helgina,“ segir Gunnar Lár Gunnarsson, verkefnastjóri EM-torgsins, sem mun rísa á Ingólfstorgi. Manhattan Marketing mun hafa veg og vanda að skipulagningu torgsins í samstarfi við Reykjavíkurborg og bakhjarla torgsins.

Eftir miklar vinsældir EM-torgsins í fyrra lýstu bakhjarlar yfir vilja sínum til þess að endurtaka leikinn að ári.

Að sögn Gunnars verður fyrirkomulagið á torginu mjög svipað og fyrir EM karla í Frakklandi í fyrra. „Við ætlum að sýna alla leiki sem við getum á torginu nema ef það eru einhverjir leikir sem skarast hver við annan, sem ætti ekki að gerast.“

Fyrsti leikurinn verður sýndur á torginu á sunnudaginn en að sögn Gunnars verður torgið opnað með pomp og prakt á fyrsta leik Íslands, næstkomandi þriðjudag.

„Reynslan hefur verið sú að það er langmest af fólki sem mætir á leiki Íslands og því liggur það beinast við að nýta tækifærið og halda opnunarhátíðina þegar fyrsti leikur Íslands er.“

Vonar það besta

Vinsældir EM-torgsins í fyrra voru miklar og þegar Ísland komst í 16 liða úrslitin var ákveðið að flytja skjáinn á Arnarhól. Þangað komu mörg þúsund manns saman og fylgdust með leiknum.

Gunnar segist vera bjartsýnn á mætingu á torgið. „Við höfum ekki fengið neitt nema góðar móttökur við þessu og erum á fullu núna að vinna í samstarfi við RÚV og fleiri að kynningarplani fyrir torgið. Við ætlum að vera með útvarps- og sjónvarpsauglýsingar til þess að láta vita af okkur. Ég held samt að þessi hugmynd sé búin að sanna sig, fólk veit alveg út á hvað þetta gengur. Við höfum heyrt að margir hafi boðað komu sína og því held ég að þetta geti bara orðið mjög skemmtilegt.“

Gunnar segist vona að stelpurnar mæti grjótharðar til leiks og láti finna fyrir sér strax frá fyrstu mínútu. „Það verður gaman að sjá hvernig þeim mun ganga í mótinu, maður verður bara að vona það besta.“

Fyrsti leikur Íslands í mótinu verður gegn Frökkum hinn 18. júlí næstkomandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert