Fengu nóg og vildu gera eitthvað

Bergur Þór og Þröstur Leó gagnrýna kerfið.
Bergur Þór og Þröstur Leó gagnrýna kerfið. Samsett mynd

„Við erum tveir samstarfsfélagar sem eigum fjórar dætur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það er fáránlegt,“ segir Bergur Þór Ingólfsson sem ásamt Þresti Leó Gunnarssyni skrifaði pistil í Fréttablaðið í dag. Pistillinn hefur vakið mikla athygli, en þar gagnrýna leikararnir stjórnvöld fyrir að hafa veitt Robert Downey uppreist æru og lögmannsréttindi á ný.

Eiga þeir samtals fjór­ar stúlk­ur sem hef­ur ýmist verið nauðgað, þær beitt­ar of­beldi eða mis­notaðar kyn­ferðis­lega. Þeirri fimmtu var byrluð ólyfjan en henni komið und­ir lækn­is­hend­ur áður en frek­ari glæp­ir áttu sér stað.

Berg­ur Þór er faðir einn­ar þeirra stúlkna sem Robert Dow­ney, áður Ró­bert Árni Hreiðars­son, braut á og hlaut dóm fyr­ir árið 2008. Var hann þá dæmd­ur í þriggja ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn fjór­um ung­lings­stúlk­um. Síðan Robert fékk upp­reist æru hafa tvær kon­ur til viðbót­ar stigið fram og greint frá of­beldi sem þær hafi verið beitt­ar af hálfu Ró­berts.

Náðu ekki tvítugu áður en þær voru beittar kynferðisofbeldi

Bergur Þór segir Þröst Leó hafa hringt í sig í kjölfar umræðunnar og sagt að nú væri nóg komið og þeir þyrftu að gera eitthvað. „Hann sagði mér sögur af dætrum sínum og þessi tölfræði er náttúrulega út í hött,“ segir Bergur Þór. Þá hafi öðrum þeirra ekki enn tek­ist að koma dætr­um sín­um yfir tví­tugs­ald­ur­inn án þess að þær hafi verið beitt­ar kyn­ferðis­legu of­beldi.

„Sú staðreynd að það skuli vera markmið fyrir foreldra að koma dætrum sínum yfir tvítugt án þess að þær verði fyrir kynferðisofbeldi er hræðileg. Að það þurfi að vera þannig að fólk vilji ná því takmarki að vera hamingjusamt, fá sér skemmtilega vinnu, vera gott hvert við annað – og já, passa að börnin sín komist yfir tvítugt án þess að verða fyrir kynferðisofbeldi er hryllilegt,“ segir Bergur Þór.

Robert Downey braut gegn ungum stúlkum.
Robert Downey braut gegn ungum stúlkum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mikið hefur verið fjallað um mál Roberts Downey undanfarið en hann fékk uppreist æru um miðjan síðasta mánuð. Brot hans gegn stúlkunum voru framin á árunum 2005 og 2006 en hann tældi þrjár þeirra með blekkingum og peningagreiðslum til kynferðismaka. Þær voru þá 14 og 15 ára. Hann komst í samband við stúlkurnar í gegnum netið og í flestum tilvikum sagðist hann vera táningspiltur.

Guðni Th. Jó­hann­es­son, for­seti Íslands, sagðist í kjölfarið skilja gremj­una hjá þolendum, fjölskyldum þeirra og samfélaginu öllu, en benti á að hann tæki ekki ákvörðun um upp­reist æru, heldur væri hún tekin ann­ars staðar í stjórn­kerf­inu. Nánar tiltekið var það innanríkisráðherra sem lagði það til við forseta.

Var það Bjarni Benediktsson sem lagði til við forseta að Robert fengi uppreist æru í september síðastliðnum, en hann var þá starf­andi dóms­málaráðherra í fjarveru Ólafar Nordal. Hann sagðist í síðasta mánuði ekki hafa átt aðkomu að mál­inu heldur hafi hann tekið við niður­stöðu úr ráðuneyt­inu sem hefði fengið sína hefðbundnu meðferð.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra var starfandi dómsmálaráðherra þegar lagt var til …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra var starfandi dómsmálaráðherra þegar lagt var til að Robert Downey fengi uppreist æru. mbl.is/Eggert

„Engin gagnrýnin hugsun í gangi“

Bergur Þór segir fálæti hafa mætt þolendum Roberts og fjölskyldna þeirra frá ráðamönnum. „Fólk skrifar undir eitthvað eins og það sé að ýta á takka á bílaþvottastöð og það er engin gagnrýnin hugsun í gangi,“ segir hann. „Forsetinn er á móti því sem hann setur nafnið sitt við en segist vera að brjóta stjórnarskrá ef hann skrifar ekki undir. Það að hann sé settur í þá stöðu og dómsmálaráðherra segi bara að upplýsingalögin nái ekki yfir þetta er eitthvað sem ég skil ekki,“ segir Bergur Þór.

Þá segist hann ekki sáttur við svör forsætisráðherra. „Hann þegir þunnu hljóði um þetta en er samt sem áður stór aðili að málinu. Það eina sem við höfum heyrt frá honum er að svona hafi þetta alltaf verið og svona eigi þetta að vera. Okkur finnst það rangt,“ segir hann og bendir á að staðan hafi verið sú sama varðandi kosningarétt kvenna á sínum tíma.

Feðraveldið sussi á þolendur

Þá segir hann að lögspekingar hafi komið fram í fjölmiðlum og ætlað að taka almenning í „siðferðislegan kúrs“.

„Þeir eru í raun að reyna að þagga niður í okkur eins og alltaf hefur verið gert. Þetta er það sem kallað hefur verið feðraveldið og það sussar á allt og alla,“ segir hann. Bætir hann við að nógu erfitt sér fyrir þolendur að stíga fram og segja frá brotunum, svo ekki sé þaggað niður í þeim. „Þetta er eins og kennari hafi brotið á nemendum og sé settur í tímabundið leyfi en komi svo aftur að kenna. Og þegar nemendur mótmæli komi skólastjórinn og segi þeim að vera ekki svona vond og hætta þessum hávaða,“ segir hann.

Hæstiréttur Íslands staðfesti það í síðasta mánuði að Robert Downey …
Hæstiréttur Íslands staðfesti það í síðasta mánuði að Robert Downey fengi uppreist æru. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Krefj­umst rétt­láts þjóðfé­lags

Í pistlinum hvetja þeir Berg­ur Þór og Þröst­ur Leó til þess að samland­ar sín­ir hætti að setja ábyrgðina á þolend­ur of­beld­is. „Krefj­umst ábyrgðar af ráðamönn­um. Siðmenn­ing er að hugsa fyrst um hag þeirra sem höll­um fæti standa,“ skrifa þeir. „Við hvetj­um feður og mæður þessa lands til að spyrna við fót­um, hafa hátt og krefjast breyt­inga. Krefj­umst rétt­láts þjóðfé­lags fyr­ir börn­in okk­ar.“

Segir hann þá Þröst hafa viljað spyrna við fæti. „Þetta verður að fá að heyrast líka. Við erum komin á þann stað að spyrja hvernig samfélagi við viljum búa í og hvaða áherslur eru í gangi.“

En hvaða áhrif vonið þið að þetta ákall geti haft? „Við vonumst til þess að þetta sé tekið inn í breytuna þegar mál samfélagsins eru rædd,“ segir hann. „Það að við vonum að verslunarmannahelgin fari fram án þess að nokkrum verði nauðgað er jafnhræðilegt en það eru þau áhrif sem við reynum að ná með því að hafa hátt og setja þetta fram fyrir meðborgara okkar og ráðamenn.“

Bergur Þór segir um að ræða risastóra breytu í samfélaginu sem hafi áhrif á líf okkar allra. „Það er hræðilegt að mér sjálfum dugi ekki fingur og tær til að telja allt það fólk sem ég þekki sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi,“ segir hann. „Ég efast um að nokkur Íslendingur þekki ekki eða kannist við einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi en það væri áhugavert að hitta þann aðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert