Læsa kettina úti og fara í sumarfrí

Algengt er að kattaeigendur yfirgefi dýrin sín þegar þeir fara …
Algengt er að kattaeigendur yfirgefi dýrin sín þegar þeir fara í sumarfrí. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Óvenjumikið er um það núna að kattaeigendur skilji dýrin sín eftir í reiðileysi þegar þeir fara í sumarfrí. Dýrin eru þá einfaldlega læst úti og eiga að sjá um sig sjálf utandyra á meðan eigendurnir sleikja sólina á fjarlægri strönd. Það eru gjarnan árvökulir nágrannar sem koma með þessi dýr í Kattholt þegar þeir sjá að ekki er verið að hugsa um þau, og verða þess varir að eigendurnir eru ekki heima.

Í fæstum tilfellum snúa dýrin hins vegar aftur heim. Eigendurnir virðast yfirleitt hafa lítinn áhuga á að fá þau aftur þegar komið er úr sumarfríi, þrátt fyrir að starfsfólk Kattholts hafi uppi á þeim.

„Fólki finnst auðvelt að fá sér nýjan kettling á haustin og losa sig við hann á vorin. Finnst auðvelt að geta skipt dýrunum út með þessum hætti, en þá er ekki verið að koma fram við dýrin eins og lifandi verur með þarfir. Fólk er kannski að fara til útlanda og það þarf að losna við köttinn í dag. Við fengum til dæmis kött til okkar um daginn af því að eigandinn var að fara til Spánar,“ segir Halldóra Snorradóttir, starfsmaður í Kattholti, þar sem ríkir nú ófremdarástand vegna fjölda katta. Kattholt rekur þó einnig kattahótel, en pláss þarf að bóka fyrirfram og þarf kötturinn að vera ormahreinsaður, bólusettur og geltur.

Heimiliskettir sem enginn vitjar

Margir kattanna sem hafa verið að koma inn síðustu vikur eru augljóslega heimiliskettir, en þeirra er ekki vitjað. „Það er ekkert spurt eftir læðum með kettlinga eða kettlingafullum læðum. Við auglýsum dýrin og vonumst til að eigendurnir hafi samband, en það gerist nánast aldrei. Kettirnir eru oft örmerktir og við höfum uppi á eigendum, en þeir koma ekki að sækja þá, þrátt fyrir að við höfum samband við þá.“

Mikið er nú um læður með kettlinga og kettlingafullar læður …
Mikið er nú um læður með kettlinga og kettlingafullar læður í Kattholti sem enginn vitjar. Mynd/Kattholt

Það verður alltaf mikil fjölgun katta í Kattholti yfir sumarmánuðina, bæði vegna þess að dýrin eru skilin eftir þegar farið er í sumarfrí og vegna þess að færri taka að sér ketti yfir sumartímann. Köttunum byrjar að fjölga hægt og rólega strax í byrjun maí og ástandið getur verið slæmt alveg fram í september. Yfirleitt er það verst í júlí.

„Þetta er orðið árlegt hjá okkur. Það kemur mikill fjölda katta til okkar yfir sumarmánuðina, sérstaklega kettlingafullar læður og læður með kettlinga. Það skrifast auðvitað á ábyrgðarleysi eigenda að hafa ekki fyrir því að gelda dýrin,“ segir Halldóra. Hún bendir á að ógeltir fresskettir séu í raun ekki heimiliskettir. „Þeir spræna út um allt og það er mikil og sterk lykt af þvaginu. Þeir ráðast líka á aðra ketti og eyðileggja eigur annarra. Svo fara þeir á flakk og týnast og eigendurnir sjá þá aldrei. Þar fyrir utan gera þeir allar ógeltar læður kettlingafullar.“

Auðveldara er að finna heimili fyrir kettlinga en fullorðna ketti.
Auðveldara er að finna heimili fyrir kettlinga en fullorðna ketti. Árni Sæberg

Hún segir þó alveg jafn mikilvægt að taka læðurnar úr sambandi til að koma í veg fyrir offjölgun, enda geti þær gotið allt upp í þrisvar á ári. „Það er alltaf verið að ítreka hvað þetta er mikilvægt, og þetta er í reglugerðum sveitarfélaga. Fólk virðist engu að síður ekki taka nógu mikið mark á þessu.“

Flytja burt og skilja dýrin eftir

Kattaeigendur losa sig þó ekki bara við dýr sín þegar þeir fara í sumarfrí. Aðrar ástæður geta búið að baki, en í flestum tilfellum hafa eigendur þá fengið sér dýr án þess að gera sér grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem fylgir.

„Fólk ræður stundum ekki við að hugsa um dýrin, til dæmis þegar læður eru komnar með kettlinga. Þá eru dýrin orðin svo mörg á heimilinu. Svo eru dæmi um að fólk flytji úr íbúð og skilji dýrin eftir. Þá er oft um leiguhúsnæði að ræða og fólk í vandræðum með að fá húsnæði þar sem má hafa dýr. Sumir fara með dýrin eitthvað í kassa, en Heiðmörk er sá staður þar sem fólk virðist oft losa sig við dýr,“ segir Halldóra.

Hún telur alltof algengt að fólk fái sér kött í hugsunarleysi. Stundum sé verið að hugsa um kettling fyrir börnin, en þegar þau missa áhugann eða geta ekki hugsað um dýrið hafa foreldrarnir ekki áhuga á að sjá um það. Fólk gerir sér þá ekki grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir því að fá sér lifandi dýr. „Ef maður tekur að sér kött þá er það að minnsta kosti 15 ára skuldbinding og fólk þarf að gera sér grein fyrir því. Fólk þarf líka að gera sér grein fyrir kostnaðinum sem fylgir því að halda dýr. Þó að þú fáir kettling gefins einhvers staðar þá kostar að láta ormahreinsa hann, bólusetja, gelda og fleira.“

Vel er hugsað um kettina í Kattholti, en ástandið er …
Vel er hugsað um kettina í Kattholti, en ástandið er erfitt núna vegna mikils fjölda katta. Mynd/Kattholt

Halldóra segir einnig mikilægt að kynna sér þarfir dýrsins, til dæmis með því að afla sér upplýsinga á netinu eða spyrja þá sem þekkja til. Þá þarf að kanna hvort vinir og ættingjar séu tilbúnir að huga að kettinum þegar eigendurnir fara í frí. Að vera í öruggu húsnæði skiptir einnig máli, því erfitt getur verið að þvælast með kött á milli leiguíbúða.

Kettirnir finna fyrir vanlíðan og verða daprir

Aðspurð hvort hún telji að kettirnir upplifi einhvers konar höfnun eða vanlíðan þegar þeir eru yfirgefnir, segist Halldóra sannfærð um það. „Þessir kettir verða oft daprir, þeir eru vanafastir og líður best heima sjá sér. Þeim þykir erfitt að koma í nýjar aðstæður með nýjum dýrum og líður oft ekki vel. Þetta reynir mjög mikið á dýrin og maður finnur fyrir eymdinni. En þeir verða mjög þakklátir þegar þeir komast á góð heimili.“

Að sögn Halldóru er alltaf einhver eftirspurn eftir köttum, þó að hún dragist saman yfir sumartímann. Kettlingarnir eru langvinsælastir og því mun auðveldara að finna ný heimili fyrir þá en fullorðna ketti. Halldóra bendir þó á að oft sé mun þægilegra og skemmtilegra að fá kött með reynslu inn á heimilið.

Halldóra segir algengt að fólk losi sig við dýr í …
Halldóra segir algengt að fólk losi sig við dýr í Heiðmörk. Mynd/Kattholt

„Mér finnst alltaf gaman þegar fólk vill fá fullorðinn kött. Það er gaman að fá kött með reynslu sem kann allt, rífur ekki í gardínur eða fleira í þeim dúr. Þú sérð karakterinn strax. Þú veist í raun meira að hverju þú gengur þegar þú tekur fullorðinn kött. Það er svo erfitt að segja til um það hvernig kettlingarnir verða þó að þeir séu alltaf skemmtilegir á meðan þeir eru litlir.“

Jákvæð athygli á heimilislausum köttum

Fyrr á þessu ári kom vefmiðillinn Nútíminn á fót raunveruleikaþættinum Keeping up with the Kattarshians, þar sem nokkrum kettlingum var komið fyrir í sérsmíðuðu húsi og hægt var að fylgjast með þeim í beinni útsendingu á netinu. Verkefnið sló í gegn og náðu vinsældir kettlinganna langt út fyrir landsteinana. Raunveruleikaþátturinn er enn í gangi en kettlingunum hefur verið skipt út nokkrum sinnum. Þegar það er gert hefur Kattholt umsjón með því að útvega þeim góð heimili.

Halldóra segir fjölda umsókna berast fyrir hvern kettling, en erfiðra sé að finna heimili fyrir læðurnar sem stundum eru með. Hún segir þættina hafa vakið mjög jákvæða athygli á heimilislausum köttum, en allir kettirnir sem koma inn í húsið í þáttunum hafa átt erfitt. Margir hverjir hafa verið yfirgefnir með þeim hætti sem lýst er hér að ofan. Halldóra segir þetta samstarfsverkefni við Nútímann hafa stytt biðtíma kattanna eftir nýjum heimilum til muna, sem sé alveg frábært.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert