Lumar þú á hugmynd fyrir aldarafmæli?

Íslendingar fagna aldarafmæli fullveldis og sjálfstæðis á næsta ári.
Íslendingar fagna aldarafmæli fullveldis og sjálfstæðis á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ætlum að höfða til allra og bjóðum öllum að senda inn verkefni, hvort sem það eru stofnanir, einstaklingar, félagasamtök eða fyrirtæki. Við hvetjum fólk til að senda okkur tillögur því við munum móta dagskrá afmælisársins út frá þeim tillögum sem við fáum,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri undirbúningsnefndar hátíðarhalda vegna aldarafmælis fullveldis og sjálfstæðis Íslands á næsta ári. Til stendur að fagna aldarafmælinu allt næsta ár með fjölbreyttri dagskrá um land allt.

Ragnheiður segir nefndina vera að leita eftir fjölbreyttum verkefnum, sem nái að fanga fullveldishugtakið í fortíð, nútíð og framtíð. „Við erum líka að skoða samfélagsbreytingarnar sem hafa átt sér stað á þessum tíma. Árið 1918, þegar Íslendingar fengu fullveldi, stóð yfir Heklugos, spænska veikin herjaði á landsmenn og frostaveturinn mikli lék okkur grátt. Hvað er það í dag sem við getum samsamað við það sem var þá? Það er svo margt sem getur komið til greina.“

Formlega verður auglýst eftir verkefnum í lok ágúst, en það er um að gera fyrir þá sem luma á sniðugum hugmyndum að fara að undirbúa sig til að geta sent inn mótaðar tillögur þegar þar að kemur.

Auglýsingastofan Pipar/TWBA var fengin til að hanna merki afmælisins.
Auglýsingastofan Pipar/TWBA var fengin til að hanna merki afmælisins. Mynd/Pipar/TWBA

Ragnheiður segir nefndina hlakka mikið til að fá tillögurnar í hendurnar. „Það eru svo miklir möguleikar á því að búa til fjölbreytt verkefni með nýstárlegri nálgun á þetta viðfangsefni sem er svo mikilvægt fyrir okkur. Bæði að vekja athygli á sögunni og skoða hana í nútímanum. Hvaða áhrif mun hún hafa á framtíðina.“

Nefndin kemur svo til með að velja verkefni úr innsendum tillögum og raðað niður á dagskrá afmælisársins. „Við leggjum mikla áherslu á landfræðilega dreifingu verkefna og að sem flestir fái að njóta afmælisársins og taka þátt.“

Samið hefur verið auglýsingastofuna Pipar/TWBA um hönnun merkis fyrir afmælisárið, en stofan mun einnig annast gerð kynningarefnis fyrir hönd nefndarinnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert