Velta dregst saman eftir komu Costco

mbl.is/Ófeigur

Velta dagvöruverslana dróst saman um 3,6% í júní frá sama mánuði í fyrra. Costco er ekki með í mælingunni heldur aðeins þær verslanir sem voru á markaði fyrir komu verslunarrisans. Er því líklegt að koma Costco hafi dregið úr veltu annarra verslana.

Costco kaus að veita ekki upplýsingar um veltu sína þegar eftir því var leitað. Síðastliðin ár hefur vöxtur í veltu dagvöruverslana verið nokkuð stöðugur og er samdrátturinn nú nokkuð úr takti við þá þróun. Líklegt er að Costco hafi klipið af markaðshlutdeild þeirra verslana sem fyrir voru á markaði og það skýri samdráttinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá rannsóknarsetri verslunarinnar.

„Þá er athyglisvert að verð á dagvöru lækkar í hraðari takti undanfarna tvo mánuði en sést hefur um alllangt skeið. Verð á dagvöru var 3,9% lægra í júní síðastliðnum en í júní í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Verðið í júní lækkaði um 1,1% frá mánuðinum á undan. Verðmæling Hagstofunnar nær ekki til verðlags í Costco,“ segir í tilkynningunni.

Velta fataverslunar dregst saman

Þótt velta dagvöruverslana hafi dregist saman að krónutölu þá jókst hún um 0,3% að raunvirði, þ.e. þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsbreytingum á einu ári. Þetta felur í sér að þótt veltan hafi dregist saman að nafnvirði er magn þess sem selt er nánast það sama og fyrir ári í þeim dagvöruverslunum sem voru á markaði fyrir komu Costco.

Sveiflur í veltu dagvöruverslunar hafa löngum verið í takt við veltu áfengissölu. Sala áfengis í júní jókst um 7,8% frá sama mánuði í fyrra og er því nokkuð frábrugðin veltu á dagvöru að þessu sinni. Verð á áfengi var óbreytt frá fyrra ári.

Verð á raftækjum, farsímum og tölvum hefur lækkað umtalsvert. Í júní var t.d. verð á svokölluðum brúnum raftækjum (sjónvörpum, hljómflutningstækjum, brauðristum o.fl.) 19,6% lægra en í sama mánuði í fyrra og á farsímum lækkaði verðið á sama tímabili um 14,1%. Líklegt er að þarna gæti áhrifa frá innkomu Costco, þó að aðrir þættir gætu haft áhrif, eins og lægra innkaupsverð frá framleiðendum ásamt styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Tekið skal fram að gæðabreytingar hafa áhrif á verðlagsmælingu Hagstofunnar sem hér er stuðst við.

Velta fataverslunar á Íslandi heldur áfram að dragast saman og er varla svipur hjá sjón miðað við sölu á fötum fyrir áratug eða fyrir hrun bankanna. Það sem af er þessu ári hefur velta stærstu fataverslana landsins dregist saman enn frekar eins og sést á meðfylgjandi skýringarmynd. Ástæða hins skarpa samdráttar á þessu ári er lokun nokkurra fataverslana og hagræðing sem átt hefur sér stað í fataverslun í byrjun árs. Enn er boðuð fækkun fataverslana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert