Drag „búst fyrir sálina“

Virgin Xtravaganza var síðasta dragdrottningin sem kom fram á Loft.
Virgin Xtravaganza var síðasta dragdrottningin sem kom fram á Loft. Ljósmynd/Joel Andersson

„Þetta er búst fyrir sálina,“ segir Rakel Mjöll Leifsdóttir, viðburðarstjóri hjá Loft, um listformið drag. Að sögn Rakelar hafa mánaðarleg dragkvöld á Loft slegið í gegn síðan þau voru fyrst haldin síðustu áramót. Á kvöldunum mætast erlendar dragdrottningar í fullu starfi og íslenska dragsenan. Kvöldin eru hugsuð fyrir alla og hvetur Rakel fólk til að koma með mömmu og pabba.

Frelsið til að vera hver sem er

Upprunalega kemur orðið drag úr ensku, sem stytting á „dressed as a girl“. Drag er þó mun flóknara en það í dag og er bæði skemmtanaform og listform. Það getur verið af alls konar gerðum og er algjörlega óháð kyni.

Rakel segir drag snúast um frelsið til að vera hver sem maður vilji vera á þeirri stundi. „Þetta er búst fyrir sálina. Við getum verið ótrúlega glam eða ekki, verið karlmaður, verið kvenmaður, verið alls konar form af okkur,“ segir Rakel.

Manneskjan sé margbreytileg og það endurspeglist í dragi. „Við erum svo flókin, mannfólkið, og við eigum ekki að vera bara ein manneskja. Við erum margar manneskjur, og það er svo gaman að sjá það í dragi.“

Íslenska dragdrottningin Mighty Bear hitaði upp fyrir Virgin. Hún spilaði …
Íslenska dragdrottningin Mighty Bear hitaði upp fyrir Virgin. Hún spilaði frumsamda tónlist sína. Ljósmynd/Joel Andersson


Dragdrottning í fullu starfi

Á hverju kvöldi kemur fram ein erlend drottning, sem er oftast bresk. „Þær koma í hálfgerðar sólarhringsferðir. Þær koma, mæta á giggið og fara svo aftur til London, því allar þessar dragdrottningar eru í fullu starfi!“ segir Rakel.

Hún nefnir sem dæmi að síðasta dragdrottningin, sem kom fram síðasta miðvikudag, Virgin Xtravaganza, hafi í beinu framhaldi haldið sýningu í London í gær. Því næst hafi hún komið fram í Bristol í kvöld og verði í Portúgal á morgun. „Þetta er massadagskrá hjá þessum dragdrottningum,“ segir Rakel.

Hugmyndin kviknaði í Brighton

Rakel Mjöll fékk hugmyndina að dragkvöldunum í námi í Brighton. Þar hafi hún kynnst breskri dragmenningu. „Ég hafði farið á dragsýningar áður en ekkert á við þetta,“ segir Rakel. Þrír bekkjarbræður Rakelar eru svo dragdrottningar og hugmyndin að kvöldunum á kviknaði í samtali þeirra á milli. Síðan hafa þeir allir komið fram á Loft.

Rakel segir meginhugmyndina bakvið viðburði á Loft vera að viðburðirnir séu fyrir alls konar fólk. „Það er frítt inn, fyrir alla aldurshóp og fullkomið hjólastólaaðgengi. Viðburðirnir eiga bæði að vera fyrir minnihlutahópa en samt ekki. Þetta er staður fyrir alla. Það er mikilvægt að öllum líði vel og séu velkomnir.“

Mighty Bear dró upp á svið annað fólk í drag …
Mighty Bear dró upp á svið annað fólk í drag til að dansa með henni. Þau tóku vel í það. Ljósmynd/Joel Andersson


Drag er ekki bara karlmaður í hárkollu

„Drag er ekki bara karlmaður í hárkollu og kjól,“ segir Rakel Mjöll. Hún segir að það geti verið svo margt, hver dragdrottning sé ólík, sérhæfi sig í ákveðnum hluti og leggi áherslur á mismunandi svið.

Íslenskar dragdrottningar hita upp fyrir erlendu drottningarnar. Þær koma oftast úr samvinnuhópnum Dragsúgi. Rakel segir að með því að sameina kvöldin mætist íslenskt drag og erlent.

Þannig geta ungar íslenskar drottningar kynnst dragdrottningum í fullu starfi og fengið innblástur. „Það er svo gaman fyrir alla sem eru í ákveðnum listum að sjá einhvern sem að gefur manni innblástur og er að vinna við þetta í fullu starfi. Þá hugsar maður: „Kannski get ég gert þetta líka“,“ segir Rakel.

Virgin Xtravaganza sagðist vera í skýjunum yfir íslenskum áhorfendum.
Virgin Xtravaganza sagðist vera í skýjunum yfir íslenskum áhorfendum. Ljósmynd/Joel Andersson


Falinn menningarkimi tekinn í sátt

Rakel segir að síðan kvöldin hafi byrjað hafi salurinn alltaf verið troðfullur. Hún fagnar því hvað þróunin í drag á Íslandi sé hröð og jákvæð. Hún segist hlakka til að sjá þróunina eftir ár.

Í salnum myndist svo frábært andrúmsloft, þar sem löngum falin menningarkimi er loksins tekinn í sátt. „Allir verða svo æstir á þessum kvöldum. Fólk syngur með og öskrar. Allir taka myndir af sér með dragdrottningunum. Þetta er svo mikil upplifun,“ segir Rakel.

Kærleikur í herberginu

Erlendu dragdrottningarnar sem hafa leikið listir sínar á Loft hafa lofað íslenska áhorfendahópinn. „Þær eru þakklátar fyrir að hafa komið til Íslands,“ segir Rakel. Hún segir að í fyrstu viti þær ekki við hverju eigi að búast, enda ekki oft bókaðar til Íslands. „Svo mæta þær og þær vilja allar koma aftur,“ segir hún.

Rakel hvetur alla til að koma á dragkvöldin og að mæta með mömmu og pabba. „Þetta á að vera fjölskylduskemmtun líka finnst mér,“ segir hún. Hún segir að áhorfendahópurinn hafi hingað til verið alls konar fólk sem eigi það sameiginlegt að vilja láta skemmta sér.

Næsta dragkvöld Loft verður miðvikudagskvöldið, 16 ágúst, en þá kemur fram dragdrottningin Crystal Lubrikunt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert