Sjarmerandi sundlaugar landsins

Drangey blasir við gestum sundlaugarinnar á Hofsósi.
Drangey blasir við gestum sundlaugarinnar á Hofsósi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Á ferðalagi um landsbyggðina finnst mörgum ómissandi að heimsækja sundlaugar þegar áð er. Í sumum byggðalögum er um mikil íþróttamannvirki að ræða en í öðrum eru laugarnar litlar og sérstakar sveitalaugar sem forvitnilegt er að dýfa sér ofan í. Mbl.is fer hér í hringferð um landið og nefnir til sögunnar nokkrar áhugaverðar laugar og hvað kostar að baða sig í þeim. Upplýsingunum var safnað frá laugunum sjálfum, af heimasíðum sveitarfélaganna og af vefsíðunni sundlaugar.is þar sem finna má upplýsingar um flestar laugar landsins. 

Sundlaugin í Húsafelli - VESTURLAND

Vatnsrennibraut er við sundlaugina í Húsafelli.
Vatnsrennibraut er við sundlaugina í Húsafelli. mbl.is/Rax

Við hefjum hringferðina í Húsafelli. Sundlaugin þar er ein vinsælasta afþreyingin í þeirri náttúruparadís sem svæðið er. Hún var opnuð árið 1965 en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og og endurbætur verið gerðar á aðstöðunni. Laugarnar eru nú tvær, heitu pottarnir sömuleiðis tveir og svo er þar að finna litla vatnsrennibraut.

Sundferðin í Húsafelli er sú dýrasta sem hér verður nefnd til sögunnar. Fullorðnir greiða 1.300 krónur og börn 6-14 ára 300 krónur.

Lýsuhólslaug - VESTURLAND

Sundlaugin á Lýsuhóli er engri lík.
Sundlaugin á Lýsuhóli er engri lík. Ljósmynd/West.is

Á Snæfellsnesi er falinn fjársjóð sundlaugaflórunnar að finna. Lýsuhólslaug er sannarlega engri lík. Hún lætur lítið yfir sér þar sem hún kúrir í skjóli hamrafells í Staðarsveitinni. Vatnið í lauginni er heitt ölkelduvatn beint úr jörðu. Það er mjög steinefnaríkt og talið hollt, róandi og græðandi. Engum efnum, svo sem klór, er blandað í vatnið. 

Fullorðnir greiða 1.000 krónur fyrir aðgang að Lýsuhólslaug og börn á aldrinum 6-17 ára 300 krónur.

Sundlaugin á Drangsnesi - VESTFIRÐIR

Sundlaugin í Drangsnesi var opnuð árið 2005.
Sundlaugin í Drangsnesi var opnuð árið 2005. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Á Drangsnesi á norðanverðum Vestfjörðum er vinsælt að koma við í heitum pottum í fjöruborðinu. Aðgangur að þeim er ókeypis. Á Drangsnesi er einnig nýlega sundlaug að finna og þangað sækir fólk líka til að njóta góðs útsýnis. 

Frítt er fyrir fimmtán ára og yngri í laugina. Fullorðnir greiða 600 krónur.

Sundlaugin Patreksfirði - VESTFIRÐIR

Fögur fjallasýn blasir við úr sundlauginni á Patreksfirði.
Fögur fjallasýn blasir við úr sundlauginni á Patreksfirði.

Og talandi um útsýni. Enginn verður svikinn af útsýninu sem blasir við úr sundlauginni á Patreksfirði. Sundlaugin er tæpir 17 m að lengd og við hana eru tveir heitir pottar. Fullorðnir greiða 1.000 krónur ofan í laugina og börn 390 kr. 

 Sundlaugin Hofsósi - NORÐURLAND VESTRA

Leikið sér í sumarblíðu í sundlauginni á Hofsósi. Útsýnið er …
Leikið sér í sumarblíðu í sundlauginni á Hofsósi. Útsýnið er einstakt. mbl.is/Sigurgeir

Hið stórbrotna útsýni frá sundlauginni á Hofsósi yfir Skagafjörðinn og Drangey dregur þreytta ferðalanga sem vilja hlaða batteríin að sundlauginni. Hún var opnuð í mars árið 2010 og var gjöf tveggja athafnakvenna, Lilju Pálmadóttur og Steinunnar Jónsdóttur, til sveitarfélagsins.

Fullorðnir greiða 900 krónur ofan í laugina og börn 8-18 ára 300 krónur.

Þelamerkurlaug - NORÐURLAND EYSTRA

Heitu pottarnir við sundlaugina í Þelamörk er rúmgóðir og notalegir. …
Heitu pottarnir við sundlaugina í Þelamörk er rúmgóðir og notalegir. Þar er líka vatnsrennibraut. Ljósmynd/www.northiceland.is

Jónasarlaug í Þelamörk er kennd við Jónas Hallgrímsson. Hún var byggð á árunum 1943-1945 og er vinsæll áningarstaður fjölskyldufólks um Norðurland. Árið 2008 voru svo gerðar umfangsmiklar endurbætur á sundlauginni. Þar er m.a. að finna vatnsrennibraut og nokkra heita potta. 

Fullorðnir greiða 800 krónur fyrir sundferðina.

 Selárdalslaug - AUSTURLAND

Sundlaugin í Selárdal við Vopnafjörð er ekta sveitalaug úti í …
Sundlaugin í Selárdal við Vopnafjörð er ekta sveitalaug úti í náttúrunni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sundlaugin í Selárdal í Vopnafirði er ekta sveitalaug. Hún er aðeins úr alfaraleið, 12 kílómetrum frá Vopnafjarðarkaupsstað, sem gerir hana einmitt enn meira spennandi. Laugin stendur á bakka Selár þar sem hún rennur í grunnu gljúfri. Leitun er að jafn fagurri staðsetningu fyrir sundlaug enda laugin rómuð fyrir umhverfi sitt. Selárlaug er varmalaug sem þýðir að hún er um 33 gráðu heit. Við hana er einnig vaðlaug fyrir börn og heitur pottur. „Það getur verið þokusúld úti í þorpi en sól og blíða hjá okkur,“ segir Ólafur Valgeirsson, starfsmaður laugarinnar. „En hvort sem það rignir eða ekki þá er nú ekkert betra en að fara í sund.“ 

Fullorðnir greiða 700 krónur og unglingar 13-16 ára 350 krónur. Börn yngri en það fá ókeypis og sömuleiðis eldri borgarar og öryrkjar.

Sundlaugin í Vestmannaeyjum - SUÐURLAND

Það er óhætt að mæla með vatnsrennibrautunum í sundlauginni í …
Það er óhætt að mæla með vatnsrennibrautunum í sundlauginni í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Vestmannaeyjar.is

Útisvæðið við sundlaugina í Vestmannaeyjum er mjög spennandi og þægilegt, rétt eins og skemmtigarður. Allir þeir sem fara til Eyja ættu að skella sér í laugina njóta aðstöðunnar en þar má m.a. finna klifurvegg og körfur til að leika sér í körfubolta á meðan buslinu stendur. 

Rúsínan í pylsuendanum eru svo tvær rúmlega 20 metra langar rennibrautir. Önnur þeirra er að hálfu trampólín sem menn skjótast á áður en þeir lenda í stórri laug. Börn á aldrinum 10-17 ára greiða 200 krónur fyrir staka sundferð og fullorðnir 900 krónur.

Það þarf vart að taka fram að sundlaugar landsins eru mun fleiri og í flestum bæjum má finna góðar sundlaugar. Hér getur þú skoðað úrvalið eftir landshlutum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert