Tekur tíma að aðlagast akstursbanninu

Hópferðabílum er frá og með deginum í dag óheimilt að …
Hópferðabílum er frá og með deginum í dag óheimilt að aka innan skyggða reitsins á myndinni. Mynd/Reykjavíkurborg

Akstursbann hópferðabifreiða í miðborg Reykjavíkur tók gildi í dag. Auk bannsins hefur borgin sett tilmæli um akstursstefnu hópbifreiða um götur í útjaðri bannsvæðisins en einhverjir rekstraraðilar hópferðabíla segjast þurfa lengri tíma til aðlögunar svo unnt sé að virða tilmæli um akstursstefnu.  

„Þetta eru viðamiklar breytingar og þetta er svolítið flókið í ferli og það eru margir bílstjórar sem eru misjafnlega vanir sem þurfa náttúrlega bara að aðlagast nýjum venjum og breyttri aðferð,“ segir Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, í samtali við mbl.is.

Þá reka kynnisferðir Hop-on Hop-off hópferðabílana sem bjóða upp á útsýnisferðir í tveggja hæða rútum þar sem farþegar geta hlustað á upptöku með leiðsögn um borgina. Breyta þarf leiðakerfi slíkra ferða í takt við bannið og tilmæli um akstursstefnu og mun það taka einhvern tíma til viðbótar að sögn Kristjáns. 

Kynnisferðir reka Hop-on Hop-off rúturnar sem bjóða upp á útsýnisferðir …
Kynnisferðir reka Hop-on Hop-off rúturnar sem bjóða upp á útsýnisferðir um Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Það er búið að taka upp á átta tungumálum og keyrt yfir ákveðna punkta þannig það tekur dálítinn tíma að breyta þessu. Við létum bara borgina vita af því að við þyrftum smá aðlögunarfrest í kringum þetta og þeir tóku ekkert illa í það og við erum bara að reyna að vinna í þessu eins hratt og við getum í því,“ segir Kristján.

Tilmæli um akstursstefnu ekki nógu vel kynnt

„Þó að bannsvæðið hafi verið nokkuð vel undirbúið þá finnst mér vinnan vegna akstursstefnunnar ekki hafa verið nógu vel kynnt og vel undirbúin þannig það gæti tekið smá tíma fyrir okkur að aðlaga okkur að því,“ segir Kristján.  

Þá telur Kristján ekki vera óeðlilegt að einhverjir byrjunarörðugleikar verði fyrstu daga bannsins. „Bara í okkar fyrirtæki þá erum við að kynna þetta fyrir 300 bílstjórum og sem keyra 130 bíla. Þá eru ótalin öll önnur fyrirtæki og þá er ég ekki bara að tala um rútufyrirtæki heldur líka afþreyingafyrirtæki sem eru með jeppa og svoleiðis,“ segir Kristján.

„Við fylgjum auðvitað þessum breytingum sem borgin er að innleiða [...] við þurfum bara smá tíma til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert