Fleiri á móti inngöngu í átta ár

Norden.org

Fleiri hafa verið andvígir inngöngu í Evrópusambandið en hlynntir í öllum skoðanakönnunum sem birtar hafa verið hér á landi undanfarin átta ár eða frá því sumarið 2009. Hvort sem kannanirnar hafa verið gerðar af Gallup, MMR, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands eða öðrum.

Miðað við niðurstöður nýjustu skoðanakönnunarinnar, sem gerð var af MMR og birt fyrir helgi, eru 47,9% andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 29% henni hlynnt. Ef aðeins er tekið mið af þeim sem tóku afstöðu með eða á móti eru 62,3% andvíg inngöngu og 37,7% hlynnt.

Fleiri eru mjög andvígir inngöngu í Evrópusambandið en eru samanlagt frekar eða mjög hlynntir henni eða 31,7% á móti 29%. Sé aðeins horft til þeirra sem eru mjög andvígir eða hlynntir inngöngu í sambandið eru nær þrefalt fleiri mjög andvígir en mjög hlynntir henni.

Þannig eru 31,7% mjög andvígir inngöngu í Evrópusambandið en 11,3% mjög hlynntir henni. Þá vekur athygli að þrisvar sinnum á undanförnum mánuðum hefur MMR mælt þá sem hlynntir hafa verið því að ganga í sambandið færri en þá sem ekki tekið afstöðu með eða á móti.

Stjórnarandstæðingar hlynntari inngöngu

Fleiri eru andvígir en hlynntir inngöngu í Evrópusambandið óháð kyni, búsetu, tekjum og menntun. Hins vegar eru andstæðingar ríkisstjórnarinnar frekar á því að ganga í sambandið. Þá eru fleiri stuðningsmenn annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hlynntir því.

Þegar kom fram á sumarið 2009 höfðu kannanir um árabil ýmist sýnt fleiri hlynnta því að ganga í Evrópusambandið eða andvíga inngöngu. Þetta breyttist samhliða umsókn um inngöngu í sambandið sem send var þá um sumarið og hafa allar kannanir síðan sýnt fleiri andvíga inngöngu.

Meðan umsóknin var í hámæli mældist munurinn á andstæðum fylkingum enn meiri en verið hefur síðustu árin. Þannig var fjöldi þeirra sem voru andvígir inngöngu í sambandið rúmlega þrefalt fleiri en þeir sem vildu í sambandið sumarið 2012 samkvæmt könnun sem MMR gerði.

Munurinn fór síðan minnkandi í kjölfar þingkosninganna 2013 þegar málið var tekið af dagskrá. Minnstur varð hann samkvæmt könnunum MMR í júlí 2014 þegar hann mældist 7,7% eða 45,1% gegn 37,4%. Samkvæmt nýjustu könnuninni mælist hann hins vegar 18,9%. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert