Gleðjast yfir skötu að sumri til

Um 400 manns mættu á Skötumessuna í Garðinum 20. júlí …
Um 400 manns mættu á Skötumessuna í Garðinum 20. júlí 2016. Ljósmynd/Víkurfréttir

Flestir Íslendingar þekkja Þorláksmessuna í desember en þó eru færri sem vita að 20. júlí árið 1237 var Þorláksmessa að sumri lögleidd hér á landi og var þessi sumarmessa ein mesta hátíð Íslendinga fyrir siðaskipti. Þó að fjarað hafi undan herlegheitunum síðustu ár halda Suðurnesjamenn messuna enn hátíðlega og er það gert með veglegri skötuveislu í Garði ár hvert. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn skipuleggjenda hátíðarinnar og sagði hann í samtali við Morgunblaðið að um mikla veislu væri að ræða.

Margir njóta góðs af hátíðinni

„Þetta er í ellefta skipti sem þetta er haldið með þessu sniði. Það mæta alla jafna í kringum 400 manns og borða saman skötu og gleðjast saman.“ Ásmundur segir fólk ánægt með að geta látið gott af sér leiða en hátíðin er einnig styrktarkvöld þar sem ágóði af seldum miðum er látinn renna til ýmissa góðgerðarmála, ásamt því sem ýmis fyrirtæki styrkja málefnið. „Við erum að fara yfir listann núna, við munum meðal annars styrkja krabbameinssjúk börn og málefni fatlaðra. Það verða fjölmörg tónlistaratriði, margir sem leggja hönd á plóg og í lok kvölds fá gestir að fylgjast með afhendingu styrkjanna, það hefur alltaf slegið í gegn,“ segir Ásmundur, en ásamt skötu verður veglegt hlaðborð í boði.

Ásmundur segir hátíðina opna öllum sem vilja mæta og styrkja gott málefni. Fer hún fram 19. júlí næstkomandi og hefst klukkan 19 í Miðgarði Gerðaskóla í Garði. Miðaverð er 4.000 krónur sem er sama verð og hefur verið undanfarin ár. Áhugasamir geta greitt inn á reikning Skötumessunnar, nr. 0142-05-70506, kt. 580711-0650.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert