Lenti með 300 farþega eftir bilun

Vélin var frá norska flugfélaginu Norwegian. Mynd úr safni.
Vélin var frá norska flugfélaginu Norwegian. Mynd úr safni. Ljósmynd/Norwegian

Óvissustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli í morgun eftir að tilkynnt var um bilun í öðrum hreyfli Norwegian-flugvélar á leið frá Los Angeles til Stokkhólms. Samkvæmt lögreglunni á Suðurnesjum var lítil hætta á ferðum, en upphaflega var fyrir mistök lýst yfir hættustigi sem síðar var lækkað niður í óvissustig.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að 300 farþegar hafi verið um borð. Vélin hafi misst afl á öðrum hreyfli og þar sem hún var á flugi nálægt Íslandi hafi verið ákveðið að lenda á Keflavíkurflugvelli. 

Að sögn Guðna gekk lendingin vel og verið var að vinna í því að koma öllum farþegum frá borði og inn í flugstöð þar sem unnið verður úr þeirra málum. Mun þjónustuaðili Norwegian hér á landi, Airport Associates, sjá um það.

Vélin sem um ræðir er af gerðinni Boeing Dreamliner.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert