Mál skólastjórans fellt niður

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar.
Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mál skólastjóra Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, sem var til skoðunar hjá Barnaverndarnefnd vegna gruns um ofbeldi, hefur verið fellt niður. Skóla­stjórinn og stuðnings­full­trúi við skólann voru send­ir í leyfi í lok júní vegna málsins en Barnaverndarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar í máli skjólastjórans.

Mál stuðningsfulltrúans er enn til skoðunar hjá nefndinni en skólastjórinn snýr aftur til starfa á morgun. Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is en Rúv greindi fyrst frá. Fjallað var fyrst um málið í fréttum Stöðvar 2 og í Fréttablaðinu í lok síðasta mánaðar.

Skólastjórinn hafði áður en málið kom upp tekið ákvörðun um að gegna eingöngu kennslustörfum næsta vetur og mun því snúa aftur til almennra kennslustarfa á morgun. Að sögn Margrétar Pálu er viðkomandi í hópi bestu og reyndustu kennara Hjallastefnunnar.

Í tilfelli stuðningsfulltrúans hafa verið nefnd fleiri atvik en í tilfelli skólastjórans sem voru hugsanlega talin athugaverð og kveðst Margrét Pála þess vegna reikna með að nefndin hafi þurft lengri tíma til að ljúka því máli. Fagnar hún því að nefndin gefi sér tíma til að fara yfir málið.

„Ég hef skilning á því að Barnaverndarnefnd þurfi tíma því það sem skiptir okkur mestu máli ru réttar og vel unnar niðurstöður, sem ég veit að eru á vegum starfsmanna Barnaverndarnefndar,“ segir Margrét Pála í samtali við mbl.is.

Hún segir að ekki gangi allir jafn langt og Hjallastefnan þegar brugðist er við málum sem þessu með því að senda starfsmenn strax í leyfi. „Ég veit að það eru ekki allir skólar sem ganga svo langt en þetta eru okkar verklagsreglur og það er full sátt um það innan fyrirtækisins,“ segir Margrét Pála.

„Við megum ekki gleyma að það eru á 10. þúsund mál sem koma til barnaverndarnefnda landsins á ári, þannig að það sem er sérstakt er hversu mikla fjölmiðlaumfjöllun þetta hefur fengið. Kannski ættum við bara að fjalla almennt meira um barnavernd,“ segir Margrét Pála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert