Matur í nafni réttlætis og anarkisma

Andrými heldur opið eldhús þar sem fólk kemur saman til …
Andrými heldur opið eldhús þar sem fólk kemur saman til þess að elda og borða saman, skapar tengsl og stuðlar að réttlæti innan samfélagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á miðvikudögum kemur fólk saman í litlu bakhúsi á Klapparstíg til þess að elda og borða saman í þeim tilgangi að skapa tengsl og njóta góðrar samveru. Að baki viðburðinum stendur Andrými, róttækt félagsrými, sem hefur verið starfrækt í rúmt ár.

Elinborg Harpa Önundardóttir, einn meðlima Andrýmis, segir þau hafa haldið opið eldhús alla miðvikudaga frá byrjun Andrýmis fyrir um ári. „Ég held að það hafi kannski verið slegið einu sinni af.“

Hún segir það hafa gengið ótrúlega vel en kvöldverðurinn miðar meðal annars að því að flóttafólk og innflytjendur geti komið saman til þess að elda og borða og í leiðinni skapa vettvang fyrir þau að leita hjálpar við ferlið. „No Borders-meðlimir eru oft á kvöldunum og geta aðstoðað við alls konar lögfræðispurningar og slíkt,“ segir Elinborg.

Á þriðjudögum fara aðstandendur eldhússins í ruslarót (e. dumpster diving) …
Á þriðjudögum fara aðstandendur eldhússins í ruslarót (e. dumpster diving) og elda mat úr því sem þau finna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elda mat úr rusli annarra

Á þriðjudögum fara aðstandendur eldhússins í ruslarót (e. dumpster diving) og elda mat úr því sem þau finna. Auk þess segir Elinborg þau vera í samstarfi við einstaklinga og fyrirtæki sem gefa þeim mat sem til stendur að henda.

„Eldhúsið er opið öllum sem vilja vera með og þau eru með sinn eigin vettvang þar sem hver og einn tekur að sér verkefni eftir því sem þau geta,“ segir Elinborg en eldhúsið er sjálfstætt starfandi innan Andrýmis. „Það er enginn sem stjórnar, þitt framtak skiptir máli og þú tekur að þér það sem þú getur.“

Hún segir að ekki margir Íslendingar komi á þessi kvöld en flestir sem mæta eru innflytjendur, flóttafólk eða skiptinemar. „Þessi kúltúr þekkist ekkert mikið hérna á Íslandi,“ segir Elinborg en bætir við að viðburðurinn henti einnig betur ákveðnum hópi fólks sem ekki hefur hér fast félagsnet eins og raunin er hjá mörgum innflytjendum og skiptinemum.

Kvöldverðurinn miðar meðal annars að því að flóttafólk og innflytjendur …
Kvöldverðurinn miðar meðal annars að því að flóttafólk og innflytjendur geta komið saman til þess að elda og borða og í leiðinni skapa vettvang fyrir þau að leita hjálpar við ferlið. „No Borders meðlimir eru oft á kvöldunum og geta aðstoðað við allskonar lögfræði spurningar og slíkt“ segir Elinborg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vantaði aðstöðu fyrir grasrótarsamfélög hér á landi

Andrými byrjaði sem tilraunaverkefni að erlendri fyrirmynd. „Í Evrópu og víðar eru til svona róttæk rými þar sem grasrótarhreyfingar og aðrir róttækir einstaklingar geta komið saman, bæði bara til þess að vera saman en líka til þess að halda viðburði og skipuleggja alls konar baráttu og finna griðastað,“ segir Elinborg. Litu þau til að mynda til Ungdomshuset í Danmörku og annarra svipaðra staða í Þýskalandi.

„Það er svakalega mikið af grasrótarstarfi í Reykjavík og grasrótarhreyfingum sem búa yfir möguleikunum að vera með mjög skapandi og virkt starf,“ segir hún og bætir við að það sem virðist stoppa þau sé að fáir mæti á viðburði en einnig getur verið að erfitt að finna aðstöðu til þess að halda þá.

Hugmyndafræði Andrýmis byggist að hluta til á á anarkískum strúktúrum. …
Hugmyndafræði Andrýmis byggist að hluta til á á anarkískum strúktúrum. „Við erum ekki feimin við að kenna okkur við anarkisma og antikkapítalisma“ segir Elinborg enda er rýmið ekki rekið í hagnaðarskyni. Ljósmynd/aðsend

Berjast fyrir réttlæti, jafnara samfélagi og minni kúgun

Það sem vantaði var aðstaða fyrir öll þessi samtök en líka vettvangur fyrir þau til þess að tengjast. „Þetta er rými fyrir baráttu fyrir réttlæti, jafnara samfélagi og minni kúgun.“ Oft tengjast þessi baráttumál kvenréttindum, réttindum transfólks eða hinsegin fólks og innflytjendum.

Hugmyndafræði Andrýmis byggist að hluta til á anarkískum strúktúrum. „Við erum ekki feimin við að kenna okkur við anarkisma og anti-kapítalisma,“ segir Elinborg enda er rýmið ekki rekið í hagnaðarskyni.

Hún segir þau samt halda sér frá allri flokkspólítik og hýsa ekki pólitíska viðburði. „Allir viðburðir eru velkomnir í Andrými sem fylgja gildum þess,“ en þau er að finna á heimasíðu þeirra og stuðla meðal annars að samstöðu og auknu réttlæti.

Andrými heldur ýmsa viðburði fyrir utan opna eldhúsið, þar á …
Andrými heldur ýmsa viðburði fyrir utan opna eldhúsið, þar á meðal fyrirlestra, kvikmyndakvöld og fleira. Stefna þau að því að flytja sig yfir í stærra rými þar sem þau geta haft opið alla daga vikunnar. Ljósmynd/aðsend

Stefna að því að stækka Andrýmið

Að Andrými koma bæði einstaklingar og samtök. Kjarni þess kallar sig litla Andrými sem heldur utan um rýmið, sér um að allt gangi vel og öllum líði vel. Þá samanstendur stóra Andrými af öllum samstarfsfélögum sem vilja leggja hönd á plóg auk þess sem sjálfstæði hópurinn eldhús Andrými sér um opnu eldhúsin.

Andrými heldur ýmsa viðburði fyrir utan opna eldhúsið, þar á meðal fyrirlestra, kvikmyndakvöld og fleira en hingað til hafa þau glímt við lítið rými sem einnig er heimili einstaklings og því takmarkað hversu mikið er hægt að hafa opið.

Þau stefna að því að flytja sig yfir í stærra rými þar sem þau geta haft opið alla daga vikunnar og fólki verður velkomið að koma og fara eins og það vill.

Elinborg hvetur alla sem hafa áhuga á að kynna sér starfið betur að koma á opnu eldhúsin og kynnast stemningunni og fólkinu þar en einnig er öllum velkomið að koma bara til þess að elda og borða og njóta samverunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert