Minni olía nú í læknum

Olíumengun í læk í Grafarvogi.
Olíumengun í læk í Grafarvogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum búin að fara yfir málið og það er verið að fara í brunna og reyna að rekja sig eftir kerfinu,“ segir Rósa Magnúsdóttir, umhverfisstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við mbl.is. Rósa kannaði aðstæður vegna olíumengunar í læk í Grafarvogi um klukkan hálffjögur í dag og virtist miklu minna af olíu í læknum en áður að sögn Rósu. Enn liggur ekki ljóst fyrir hvað olli menguninni.

„Ég skoðaði lækinn áðan og þetta er mjög lítið í augnablikinu [...] En það er eitthvað sem hefur farið úrskeiðis, einhvers staðar hefur farið olía í þetta ofanvatnskerfi,“ segir Rósa og einkum þrennt komi helst til greina.

Olía gæti hafa farið niður á bílaplani. Olían gæti einnig hafa komið frá plani þar sem flætt hafi upp úr yfirfullri olíuskilju og ofan í niðurfall. Olíuskilja er mengunarvarnabúnaður sem skilur að olíuefni og vatn í frárennsli en þær eru meðal annars á bílaþvottastöðvum. Í öðru lagi gæti einhvers staðar verið röng tenging. Rósa telur ólíklegt að einhver hafi valdið menguninni af ásettu ráði.

Um er að ræða stórt svæði og þarf að rekja sig upp eftir kerfinu, kíkja í brunna og athuga hvort þar sé olíusmit. Þá þarf að fara ofan í kerfið til að finna hvar nákvæmlega olían kemur inn og rekja svo eftir lögnunum sem liggja um hverfið. Það er talsverð vinna sem kann að taka einhvern tíma að sögn Rósu.

Ljóst er þó að olía hefur farið í ofanvatnslögn og því leitaði heilbrigðiseftirlitið eftir aðstoð Veitna til að skoða málið. „Þegar við fáum þessa tilkynningu og sjáum ekki í fljótu bragði hvaðan þetta kemur biðjum við Veitur að koma inn í málið,“ segir Rósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert