Eldur í kísilverinu í Helguvík

Reykkafarar að störfum í verksmiðjunni í nótt. Eldglæringar bárust frá …
Reykkafarar að störfum í verksmiðjunni í nótt. Eldglæringar bárust frá ofninum Ljósmynd/Víkurfréttir Hilmar Bragi

Eldur kom upp í kísilveri United Silicon í Helguvík rétt fyrir klukkan þrjú í nótt. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var sent á staðinn, auk lögreglu að því er fram kemur á vef Víkurfrétta.

Logaði eldur á neðri hæð aðalbyggingar kísilversins þegar að var komið.

Heimildir Víkurfrétta segja eldinn hafa kviknað vegna mistaka sem urðu þegar verið var að mata ljósbogaofn verksmiðjunnar. Eldur hafi þá komist úr ofninum og niður á jarðhæð verksmiðjunnar. Eru starfsmenn sagðir hafa hlaupið frá ofninum og einhverjar sprengingar orðið.

Slökkvilið að störfum á vettvangi.
Slökkvilið að störfum á vettvangi. Ljósmynd/Víkurfréttir Hilmar Bragi

Talsverðar eldglæringar voru í verksmiðjunni um tíma eftir að slökkvilið kom á vettvang og lagði reyk frá verksmiðjuhúsinu í átt til Garðs og yfir golfvöllinn í Leiru.

Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja kviknaði eldurinn er verið var að tappa bráðnum kísilmálmi af ljósbogaofninum niður í kör. Karið yfirfylltist og heit blandan flæddi út yfir karið og niður á pall með þeim afleiðingum að það kviknaði í rafmagnsbúnaði og rafmagn sló út þegar í stað.

Starfsmenn náðu hins vegar að slökkva eldinn og kom því ekki til þess að slökkvilið yrði að aðhafast nokkuð. Einn bíll frá slökkviliðinu var þó á vettvangi um tíma starfsmönnum til halds og trausts.

Engan sakaði og segir slökkvilið starfsmenn hafa brugðist hárrétt við atvikinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert